146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:39]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu er í rauninni formbinding á lánaformi, þ.e. að hægt sé að taka gengistryggt lán í stað gjaldeyrisláns þar sem breytistærðum er einungis raðað í annarri röð í uppgjöri. Það er þá hugsanlega hægt að taka lán í einhverri blöndu mynta og formbinda það. Að gildandi lögum er einstaklingum og fyrirtækjum heimilt að taka lán í erlendri mynt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði byggjast meðal annars á greiðslugetu, rétt eins og þegar einstaklingur og fyrirtæki taka lán í íslenskri krónu. Annað er nú ekki verið að gera í þessu frumvarpi.

Frumvarpið felur ekki í sér áskorun til nokkurs aðila um að taka lán. Öðru nær. Hér er hert á eða að minnsta kosti áminnt um greiðslugetu, rétt eins og í innlendum lánum. Því er mjög haldið fram í ræðu að aðeins ríkir geti tekið lán. Það er nú nánast þannig í dag að það eru aðeins þeir efnameiri eða fólk með háar tekjur að taka lán á Íslandi. Hér er því ekki nein breyting í þá veru.

Sömuleiðis að halda því fram að það séu aðeins ríkir sem geti tekið gengislán á lágum vöxtum: Ef svo er þá taka þeir ákveðna áhættu sem er sneggri að tikka inn en sá breytileiki sem fylgir svokölluðu verðtryggðu láni sem er hér í boði, þ.e. sá ávinningur kann að þurrkast út. Því var haldið fram í ræðu áðan að það væru kjöraðstæður til að taka lán í erlendri mynt. Það er öðru nær. Það eru kjöraðstæður í dag til að kaupa erlendan gjaldeyri vegna styrkingar krónunnar, og jafnvel að geyma þann gjaldeyri undir koddanum, ef pláss er þar.

Í ræðu sem hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir flutti áðan var ýmsu snúið á hvolf, eins og ég reyndi að vekja athygli á.

En varðandi þessa breytingu á vaxtalögum og lögum um neytendalán og fasteignalán þá er hér einungis verið að formbinda ramma. Í því felst engin áskorun. Og við skulum líka minnast þess að það er svo skrýtið að það er aðeins lítill hluti mannkyns sem á kost á að taka lán í þeirri kjörmynt sem íslenska krónan er. Það er skrýtið að þessum litla hluti mannkyns skuli þröngvað til að taka lán í þessari mynt ef annað er í boði. Ef viðkomandi leitar út fyrir landsteinana á hinn sameiginlega evrópska markað — við erum að tala um innri markað Evrópusambandsins og EES, evrópsk efnahagssvæðis — gengst hann undir ákveðnar reglur og ramma þar líka. Hér er, eins og ég hef margoft sagt, einungis verið að formbinda þann samningsramma sem um er að ræða.

Því hefur verið haldið fram hér að óvarðir komi illa út úr þessu. Frumvarp af svipuðu tagi hefur reyndar komið hér inn tvisvar áður, það kom fyrir þingið tvisvar á síðasta kjörtímabili. Þá kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaga að þau hefðu rannsakað sína hagi nokkuð vel og komist að því að það væri aðeins eitt lántökuár sem skilað hefði þeim lakari árangri. Það var nú öll áhættan sem þeir aðilar töldu sig vera í og óskuðu eftir því að hafa þessa heimild til að taka erlend lán en ekki að fastbinda það.

Mér var líka brigslað um það áðan að hafa ekki minni. Ég hef nú bara fínt minni og hef líka reiknað dálítið út stöðu lána og núvirt lán. Þegar gengi krónunnar styrkist hér við óeðlilegar aðstæður fyrir nokkrum árum hófu menn að taka erlend lán sem aldrei fyrr og bankarnir, með nú dæmdum mönnum, veittu þau lán en ekki af mikilli þekkingu. Gengisáhætta verður enn þá meiri þegar krónan hefur gengið í gegnum mikið styrkingarferli. Það getur vel verið að menn þurfi að horfa í það hvenær horft skuli til þess að taka þessi lán sem tengjast erlendri mynt.

Í 8. gr., ef ég man rétt, er lítillega tæpt á greiðslumati. Þar segir til dæmis hvergi að sá sem hafi tekjur í erlendum gjaldmiðli þurfi að hafa miklar tekjur eða vera mjög ríkur. Það er því undarlegt að gera því skóna að það sé aðeins fyrir efnameiri að taka lán samkvæmt þessum lið: „… hefur staðist greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum“. Þetta er samsvarandi ákvæði og er varðandi verðtryggð lán. Það kann að verða breyting á vísitölu neysluverðs og þá kemur skot, þ.e. greiðslubyrðin kann að hækka, og við því þarf að bregðast. Svokölluð verðtryggð lán hækka en þau hækka kannski ekki eins hratt og gengislán eða lán í erlendri mynt því að gengisbreytingar gerast yfirleitt mun hraðar en breytingar á vísitölu neysluverðs.

Svo ætla ég að bæta hérna inn að ég hef oft velt því fyrir mér hverjir hafi tekjur í erlendri mynt. Nú er verið að veiða loðnu. Hafa ekki sjómenn tekjur í erlendri mynt? Þeirra tekjur eru miðaðar við afurðaverð sem er í erlendri mynt. Ég tel t.d. að sjómenn hafi tekjur í erlendri mynt. Þeir eiga náttúrlega sjálfkrafa að falla undir a-lið 8. gr.

Ég segi ósköp einfaldlega að vaxtalög eiga að vera með almennum hætti, búa almennan ramma um þá samninga sem felast í lánum. Ef ég kann einhverja lögfræði þá er aðeins eitt lánsform sem er mjög lögbundið, þ.e. víxillinn. En skuldabréfið er samningur sem er ekki óvarlegt að minnsta kosti að veita hinum veika, sem er lántakinn, einhvern stuðning í þessum lögum um vexti, hvort heldur er í neytendalánalögum, lögum um fasteignalán eða almennum vaxtalögum.

En ég endurtek það sem ég hef áður sagt að ég tel að þetta frumvarp sé til bóta. Það er rammi. Það er ekki áskorun til að taka lán. Málið fær væntanlega þokkalega meðferð í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og ég hlakka til þess.