146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:50]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nú að báðar þessar spurningar séu fyrir utan efni frumvarpsins. Seinni liðnum ætla ég að svara neitandi. Fyrri liðurinn er kannski spurning um mína einkahagi sem hv. þingmanni kemur nákvæmlega ekkert við. En ef við veltum þessu upp fræðilega, eftir þær lýsingar sem þingmaðurinn fór með, er það svo að þegar gengi krónunnar hefur styrkst verulega og gengi pundsins hefur fallið gagnvart öðrum myntum og þessir kostir eru í boði þá myndi fátækur maður ekki taka lán í þeim myntum sem hafa fallið því að þær gætu styrkst. Hafi íslenska krónan hækkað hafa hinar fallið. Þá er alveg einboðið, þrátt fyrir vaxtamun, að taka lán í íslenskum krónum. Og jafnvel að taka lán í íslenskum krónum og kaupa erlenda mynt því að það kann að vera að þegar krónan fer út úr jafnvægisfasa verði ávinningur af. En ég endurtek að ég tel að efni spurninganna komi þessu frumvarpi nákvæmlega ekkert við.