146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[17:00]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert hissa á því að hv. þingmaður hafi engin svör. Hann kemur iðulega í pontu með alls konar fullyrðingar um að eitthvað sé svona og svona en þegar gengið er á hv. þingmann og hann krafinn svara komum við því miður allt of oft að tómum kofanum. Það er að gerast hérna í dag. Það er þess vegna sem ég nefndi kjöraðstæður. Ég er svolítið hissa á því að þegar hv. þingmaður mætir hér í pontu með svona fullyrðingar sé hann ekki tilbúinn til að rökræða við aðra þingmenn. Bara vegna þess að hann hefur engin svör. Og það er auðvitað ekki gott fyrir umræðu hér á þingi.

Mig langar að spyrja þig aftur, hv. þingmaður, hvernig skilur þú b-liðinn? Hverjir geta staðið af sér verulegar gengisbreytingar og verulegar hækkanir á vöxtum? Við vitum alveg hverjir það eru. Það kann að vera erfitt fyrir þig að heyra að það sé aðeins efnameira fólk sem getur staðið b-liðinn af sér en það er bara staðreynd málsins.

Ég myndi líka gjarnan vilja að hv. þingmaður benti mér á nákvæmlega sama ákvæði er varðar verðtryggð lán, hvort þá sé nefnt að viðkomandi aðilar verði að geta staðist greiðslumat sem felur í sér verulegar gengisbreytingar — það á náttúrlega ekki við því að þetta eru verðtryggð lán — eða verulega hækkun á vöxtum. Ég myndi kunna að meta ef hann gæti vísað í það og svarað þeim spurningum sem beinast að honum. Það þykir bara almenn kurteisi.

(Forseti (TBE): Forseti brýnir fyrir þingmönnum að beina máli sínu til forseta.)