146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[17:30]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið og get tekið undir að það er að sjálfsögðu æskilegt að við séum ekki algjörlega háð stofnunum sem við erum ekki aðilar að og höfum ekki neina stjórn yfir. En það leiðir mann kannski að annarri spurningu sem snýst um það hvort ekki sé ástæða til þess að leitast eftir því að það verði hreinlega mun nánari samvinna með þannig hætti að við hefðum beinan aðgang að þessum stofnunum. Nú eru þetta stofnanir Evrópusambandsins og kannski fer þetta svolítið inn á eðli samskipta Íslands og EES-ríkjanna við Evrópusambandið, en þarna er kannski tækifæri til þess að reyna að ná nánari samstarfi með því að fleiri stofnanir Evrópusambandsins yrðu þannig að EFTA-ríkin, og EES-ríkin sér í lagi, hefðu aðgang að þeim. Þó svo að við séum kannski að tala um EBA, ESMA og EIOPA þá verður manni hugsað til fleiri stofnana sem ýmist eru til á grundvelli Evrópusambandsins eða annarrar Evrópusamvinnu sem Ísland hefur misjafnan aðgang að og gæti verið nánari. Það væri áhugavert að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi einhverjar skoðanir um það hvernig við gætum reynt að nálgast þessar stofnanir frekar með einhverjum breytingum á samvinnuformi okkar.