146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

Brexit, EFTA og hagsmunir íslands.

[15:59]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Evrópusambandið stendur á miklum tímamótum um þessar mundir þar sem eitt stærsta ríkið, Bretland, er að undirbúa útgöngu. Evrópusambandið verður mjög upptekið af þessum breytingum þar sem framgangur þessa máls mun hafa mikil áhrif á framtíð Evrópu. Þessi mál eru einnig ofarlega á baugi í utanríkisstefnu Íslands. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í utanríkismálum segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu. Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systurstofnanir í öðrum Evrópuríkjum.“

Af þessu má skilja að megináhersla í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar sé á EES-samninginn og þar af leiðandi á aðild okkar að EFTA þar sem EFTA ber ábyrgð á framkvæmd EES-samningsins.

Virðulegi forseti. Haft er eftir hv. formanni utanríkismálanefndar Alþingis og þingmanni Viðreisnar, Jónu Sólveigu Elínardóttur, á fréttavef bandaríska dagblaðsins Washington Times að aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu dugi ekki lengur til að tryggja hagsmuni Íslands. Þessu voru gerð frekari skil í Morgunblaðinu.

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé sammála formanni utanríkismálanefndar um að aðild Íslands að EFTA dugi ekki lengur til að tryggja hagsmuni Íslands.