146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

183. mál
[16:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Já, það eru mörg álitaefnin í þessu. Sveitarfélögin eru hluti af verkefnisstjórninni, þau hafa að einhverju leyti tekið þátt í vinnu hvað þetta varðar og munu gera það áfram. Svo mega menn heldur ekki gleyma því að fyrirkomulag þessara mála — þótt það þurfi kannski að byrja hjá stjórnvöldum eða Þjóðskrá, við erum bara að tala um skipta búsetu og skráningu á því. Í framhaldinu þurfa fjölmargir aðilar að vera tilbúnir til að taka á móti skráningu í þjóðskrá um tvöfalda búsetu. Það getur verið talsverð áskorun fyrir marga aðila, fjármálastofnanir og aðra sem þurfa að fara að vinna eftir því að einhver einstaklingur er með tvö heimili.

Það eru mörg álitaefni í þessu. En í vinnu sem þessari eru hagsmunir barnsins að sjálfsögðu ávallt hafðir að leiðarljósi fyrst og fremst. Það mun aldrei koma til þess að menn játi einhverjum reglubreytingum hérna sem skert geta hagsmuni barnsins með beinum eða óbeinum hætti. Þetta mál er hins vegar líka mikið réttlætismál fyrir börn. Það er mikilvægt fyrir þau að geta gengið að því vísu að þau eigi tvo foreldra sem ekki búa saman og foreldra sem eru sammála um að ala þau upp í sameiningu. Börn eiga að geta gengið að því vísu að þau eigi rétt á að vera skráð hjá báðum foreldrum og að báðir foreldrar séu upplýstir um stöðu þess og hagi.