146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:49]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Á vef embættis landlæknis er að finna viðmiðunarmörk um það sem getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu. Eftirfarandi viðmið gilda, með leyfi forseta:

„Samband við heilsugæslustöð samdægurs.

Viðtal við heilsugæslulækni innan 5 daga.

Skoðun hjá sérfræðingi innan 30 daga.

Aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá febrúar 2016 um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga kemur fram að um 718 börn biðu sér- og ítarþjónustu vegna geðheilsuvanda undir árslok 2015.

Á vef ADHD-samtakanna kemur fram að hundruð einstaklinga bíða nú greiningar og úrræða vegna ADHD og fylgiraskana. Á Þroska- og hegðunarstöð bíða nú á fjórða hundrað börn, þar af er hátt í þriðjungur í svokölluðum forgangi og bið. Hjá ADHD-teymi Landspítalans fyrir fullorðna er um tveggja ára biðtími.

Ljóst er að þörf er á að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og tryggja betri aðgang að greiningu og meðferðum sem þörf er á. Einnig þarf að auka vægi sálfræðimeðferðar, efla fræðslu og félagsleg úrræði og styðja betur við foreldra og kennara. Það verður dýrkeypt (Forseti hringir.) fyrir samfélagið allt að halda áfram að hunsa þessar þarfir og hvet ég ráðherra til að fara í aðgerðir vegna þessa máls.