146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Grunnframfærsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna námsárið 2016–2017 er 172.788 kr. á mánuði. Grunnframfærsla miðar við einhleypan námsmann í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði.

Ég trúi því ekki að nokkur geti lifað á þessari framfærslu. Það er bara ekki hægt. Ég fékk tölur frá námsmanni í Danmörku þar sem útgjöld vegna húsaleigu, matar og annarra nauðþurfta voru afar hófleg en þó vantar hann um hálfa milljón kr. á önn til að ná endum saman.

Þetta er óviðunandi ástand. Núverandi kerfi neyðir fólk sem oft er í afar flóknu og krefjandi námi til að vinna mikið með skóla og dreifa þannig athygli sinni. Þetta er sérstaklega áberandi hjá þeim sem hafa ekki mikla möguleika á stuðningi frá fjölskyldu sinni og þekki ég t.d. til námsmanns sem þurfti að hætta námi nýlega vegna fjárskorts. Núverandi fyrirkomulag skapar áhyggjur og streitu hjá efnaminni námsmönnum, en rannsóknir hafa sýnt að streitueinkenni geta dregið úr getu fólks hreinlega til að hugsa rökrétt og taka skynsamlegar ákvarðanir, sem eru held ég eiginleikar sem er eðlilegt að vilja hámarka hjá þeim sem stunda nám. Þessi streita getur leitt til þess að fólk finni fyrir þunglyndi og kvíða og það er ekki gott.

Eitt af markmiðum LÍN ætti að vera að hámarka námsgetu skjólstæðinga sinna og því er eðlilegt að framfærsluviðmiðið sé þannig að námsmenn kvíði ekki fyrir framtíðinni og skolist ekki úr námi vegna peningaleysis, þunglyndis eða kvíða, eins og ég gerði reyndar sjálfur á sínum tíma. Brottfall nemenda úr skólum er óskilvirkt fyrir menntakerfið. Það er aftur á móti hægt að draga úr því með því að samræma framfærsluviðmið við raunveruleikann og það er augljóst skref í rétta átt.

Ég mun á næstunni óska eftir sérstökum umræðum um þetta mál.


Efnisorð er vísa í ræðuna