146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[22:20]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggi hér fram heildstæðan lagabálk um Umhverfisstofnun. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég deili að einhverju leyti áhyggjum hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés.

Saga þessarar stofnunar er orðin alllöng. Þetta er 14 ára gömul stofnun. Lög um hana voru sett 15. maí 2002 og eru kannski dæmigert barn síns tíma. Þetta er samtíningur laga úr ýmsum áttum þar sem heldur er lítið um fallegan prósa, það er svo sem kannski ekki tilgangur laga, en eins og Ríkisendurskoðun á vanda til þá gerir hún úttektir á hinum ýmsu stofnunum ríkisins. Umhverfisstofnun er engin undantekning þar.

Árið 2006 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu sem bar titilinn Umhverfisstofnun — Stjórnsýsluúttekt. Sú skýrsla hafnaði reyndar ekki í jólabókaflóðinu þá, en ég held hún hafi verið ágæt engu að síður. Þar kom fram að setja þyrfti setja lög sem væru heildstæð eining þar sem mælt væri fyrir um hvert hlutverk stofnunarinnar ætti að vera og hvaða verkefnum hún ætti að sinna. Þegar þetta kom út í hið fyrra sinn voru á þriðja tug laga sem giltu um verkefni hennar og gilda enn, því að það frumvarp sem nú er lagt fram hefur ekki enn tekið gildi.

Það gerðist frekar lítið en árið 2010 birti Ríkisendurskoðun enn aðra skýrslu, Eftirfylgni úttekta ársins 2006, hét hún. Þar kemur fram að ekkert hafi gerst í lagaumhverfi Umhverfisstofnunar. Árið 2011 kemur þriðja skýrslan út, Ábending frá Ríkisendurskoðun: Ítrekun. Endurskoða þarf löggjöf um verkefni Umhverfisstofnunar.

Árið 2014 spyrst Umhverfisstofnun fyrir um hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hvort ekki standi til að fara að gera eitthvað. Jú, það á að skipa starfshóp, hann verði skipaður í febrúar 2014 og hann eigi að vinna frumvarp til laga.

Nú veit ég ekki hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir byggir á vinnu þess starfshóps, það skiptir ekki öllu máli. Boðskapur máls míns hér er einfaldlega sá að forverar núverandi hæstv. ráðherra hafa alls ekki staðið sig í stykkinu. Það er í raun til skammar að það taki 14 ár eftir að þessi stofnun var sett á fót, að gera eitthvað í málunum, 11 árum eftir að Ríkisendurskoðun kom fyrst með ábendingar um að þarna megi nú breyta talsvert miklu og færa til betri vegar. Það er náttúrlega alveg galið. Það má kannski segja að þetta sé ekki rétti vettvangurinn til að fella dóm yfir fyrrverandi ráðherrum þar sem þeir geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Virðulegur forseti. Ég má til með að lýsa hneykslun minni yfir þessu sorglega ferli, þessari raunasögu. Við höfum svipaða raunasögu hjá Matvælastofnun. Ég velti því fyrir mér hvort ástandið með aðrar ríkisstofnanir sé svipað, hvort lög um þær séu samtíningur úr hinum ýmsu áttum.

Ég kýs að lengja ekki þennan kvöldfund frekar en orðið er og vil að endingu ítreka þakkir mína til hæstv. ráðherrar fyrir að hafa ráðist í þetta verk.