146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[15:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér erum við að staðfesta ríkisreikning 2015. Þar sem ég var ekki við umræðuna á þingi í síðustu viku, þegar þetta var rætt, vil ég þakka formanni fjárlaganefndar fyrir að klára þetta mál með allri nefndinni. Eins og við vitum var niðurfelling á tilteknum stofnunum partur af samkomulagi sem við gerðum við gerð fjárlaga þessa árs nú. Nefndin var sammála því að til þess að ekki þyrfti að koma til skerðingar þjónustu á tilteknum stofnunum væri um að ræða sértæka aðgerð um niðurfellingu umfram það sem alla jafna er gert. Um leið staðfestir þetta líka að margar af þessum stofnunum hafa verið vanfjármagnaðar til allt of langs tíma. Þetta á ekki bara við um heilbrigðisstofnanir. Sjúkratryggingar eru ár eftir ár í vanda sem nú þegar hefur birst okkur á yfirstandandi fjárlagaári. Hið sama má segja um sýslumannsembættin sem sum hafa verið í basli frá sameiningu og lögregluna sem ekki hefur fengið styrkingu miðað við aukið álag til margra ára.

En það er líka mikilvægt að fundin sé leið til að umbuna þeim stofnunum sem eru með rekstur sinn innan heimilda til hvatningar til áframhaldandi góðs reksturs. Með nýjum lögum um opinber fjármál er skerpt á ábyrgð ráðherra gagnvart þeim stofnunum sem undir þá heyra en nú er starf og eftirlit fjárlaganefndar í mótun gagnvart hinum nýju (Forseti hringir.) lögum um opinber fjármál og ég vona svo sannarlega að okkur takist vel að fóta okkur vel í því verkefni sem fram undan er.