146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

endurgreiðsla á virðisaukaskatti til ferðamanna.

239. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Guðrún Helgadóttir) (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðastað við og fá svör frá hæstv. fjármálaráðherra varðandi endurgreiðslu af virðisaukaskatti til ferðamanna eða svokallað „tax free“ eins og það heitir víst á engilsaxnesku, með leyfi forseta.

Eins og staðan er núna er 15% endurgreiðsluhlutfall til ferðamanna á vöru sem kostar yfir 6 þús. kr. og er keypt hér á landi og er þetta u.þ.b. það sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu. Ástæðan og hugmyndafræðin á bak við „tax free“ er til þess að auka smásöluverslun og að sama skapi að þeir ferðamenn sem koma hingað til lands noti ekki innviði okkar til jafns við þá sem búa hér og eigi því að greiða minna til samfélagsins. Það eru alla vega ein rök fyrir því að endurgreiðsla af virðisaukaskatti eigi að vera til staðar fyrir ferðamanna.

Árið 2014 voru endurgreiðslur til ferðamanna 2 milljarðar úr ríkissjóði, sem fóru til baka í vasa ferðamanna sem og milliliða sem sjá um að endurgreiða virðisaukaskattinn, og 2,2 milljarðar árið 2015. Við sjáum gríðarlegan vöxt í því. Á sama tíma sjáum við m.a. að vegakerfinu okkar er ekki nógu vel við haldið. Það er oft verið að ræða hvernig við eigum að ná tekjum af ferðamönnum til þess að komast til móts við þá uppbyggingarþörf sem er til staðar vegna ferðamannaiðnaðarins.

Því spyr ég tiltölulega opið:

Hver er afstaða ráðherra til endurgreiðslu á virðisaukaskatti til ferðamanna?

Telur ráðherra að hækka eða lækka eigi endurgreiðsluna?

Telur ráðherra nauðsynlegt að bjóða upp á endurgreiðsluna?

Er nauðsynlegt að gefa til baka fyrir hverja selda vöru?

Væri ekki möguleiki að minnka endurgreiðslur úr ríkissjóði með því t.d. að færa hámarkið upp í 10 þús. kr., 15 þús. kr? Í Frakklandi þarf til að mynda að kaupa fyrir 175 evrur til að fá endurgreiðslu.

Það er margt hægt að gera til að tryggja að við höldum áfram að byggja upp t.d. vegakerfið. Þetta er ein umræða sem þarf að taka. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. ráðherra.