146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

endurgreiðsla á virðisaukaskatti til ferðamanna.

239. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Guðrún Helgadóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að þakka fyrir þetta svar. Varðandi þær tölur sem virðast ekki stemma hjá okkur þá fæ ég mínar tölur frá ríkisreikningi 2014 og 2015. Það getur vel verið að aðrar tölur komi fram annars staðar, það ber að athuga.

Mér heyrist við hæstv. fjármálaráðherra vera tiltölulega sammála og samstiga í þessum efnum, ótrúlegt en satt. Ég hugsa að það væri kannski tilefni til að gera úttekt á því hversu mikið gildi „tax free“ eða endurgreiðsla til ferðamanna hefur á smásölurekstur hér á landi áður en farið er út í miklar breytingar. Ég veit það alla vega vegna reynslu minnar þar sem ég er alin upp í verslun sem selur föt að þetta var engin sérstakur sölupunktur, ef svo má að orði komast. Það eru margir sem hreinlega nenna ekki að standa í þeirri umsýslu að fá skattinn endurgreiddan.

Ég hvet hæstv. ráðherra einfaldlega til að fara fyrst í úttekt í samráði við verslunareigendur til að athuga hvort hægt væri að ná einhverri lendingu í þeim efnum. Eins og við hæstv. fjármálaráðherra erum sammála um er nauðsynlegt að bæði greiða niður skuldir og styrkja innviði. Hver einbreið brú kostar u.þ.b. 500 milljónir, að laga hana til að setja í tvíbreiða brú. Við getum litið á þetta sem fjárfestingu inn í framtíðina, til þess að tryggja ferðamannaiðnaðinn fyrir komandi kynslóðir.