146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmanninn varðandi þennan kostnað. Það er rétt að það er kostnaður í formi ráðuneytisstjóra annars vegar og hins vegar í formi ritara ráðuneytisstjórans, ef ég skildi það rétt. Hinu tókst okkur í minni hlutanum að kalla eftir, að ekki væri eðlilegt að auka það umfang meira. Ef þingmaðurinn gæti upplýst okkur um það í hverju öðru felist kostnaður. Ef ég skil þetta rétt í lögunum, að innra skipulag ráðuneyta, starfsmannahald o.s.frv. fylgi skrifstofustjórinn sem er að auka við og ritara hans, það fylgir ráðuneytinu, þá þarf þetta ráðuneyti. Það er alveg rétt sem þingmaðurinn segir að það eru málefni sem ráðherrar fara með, svo eru það mismunandi ráðherrar sem þeim er skipt á. Þeir ráðherrar geta allt eins starfað innan sömu ráðuneyta, eins og er með aðra ráðherra í þessari ríkisstjórn, þannig að það væri alveg hægt að gera svoleiðis.

Myndi samkvæmt lögunum sá aðili fá þann starfsmann sem er verið að bæta við, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmann ráðuneytisstjórans, til þess? Mér finnst bara gott mál að bæta við þeim starfsmönnum til þess að halda betur utan um þau mál og þá er hægt að setja meiri fókus, annars vegar á dómsmál og hins vegar á samgöngumál. Samgöngumálin eru sérstaklega mikilvæg núna en yfir það heila, yfir réttarríkið okkar, eru dómsmálin mikilvæg. Þar sjáum við stjórnsýslu dómstólanna sem virðast ekki lúta stjórnsýslulögum, þeir lúta ekki upplýsingalögum og fá sífellt á sig ákúrur fyrir það að standa sig ekki hvað þetta varðar. Enginn getur sagst hafa almennilegt eftirlit með því. Það eru mörg verkefni. Þetta er það sem er mest aðkallandi núna, við heyrum það, og þarf að fara í.

Ef þingmaðurinn gæti sagt okkur að hvaða öðru leyti kostnaðurinn eykst en með ráðuneytisstjóra og því. Og væru aðrar leiðir til þess að fá þennan ráðuneytisstjóra (Forseti hringir.) og aðstoðarmann en skipta þessu upp í ráðuneyti eða breyta lögunum? Þetta er þingsályktunartillaga, sem er einfaldara.