146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við eigum heimsmet í hækkun íbúðarhúsnæðis. Áframhaldandi verðhækkanir á fasteignamarkaði blasa við. Arion banki spáir 7–8% hækkun á verði húsnæðis á ári næstu tvö árin. Vaxandi innlend eftirspurn og kaupmáttur og bati á vinnumarkaði munu ýta undir þá þróun. Fasteignaverð í fjölbýli mun hækka hraðar en verð á sérbýli. Eftirspurn mun halda áfram að aukast og byggingarframkvæmdir munu fylgja í kjölfarið en ekki fullnægja eftirspurn. Verð á húsnæði ræðst af markaðnum, af framboði og eftirspurn. Það er miklu meiri eftirspurn en framboð á íbúðarhúsnæði. Aukin áhrif leigufasteignafélaga á markaði hafa leitt til þess að þau hafa keypt heilu fjölbýlishúsin til að stækka eignasafn sitt og um leið veitt leigjendum aðgengi að húsnæði. Tilkoma þessara leigufélaga hefur valdið því að æ fleiri berjast um lausar íbúðir og leiguverð stórhækkar. Verst bitnar það á eignalitlum einstaklingum og barnafjölskyldum sem ekki eiga eigið húsnæði. Að auki hefur fjölgun ferðamanna þau áhrif að stór hluti íbúðarhúsnæðis í Reykjavík hefur verið breytt í Airbnb-íbúðir sem ekki eru á almennum markaði. Þetta þekkjum við. Fólki á okurleigumarkaði hefur stórfjölgað. Frá árinu 2004 hefur leigjendum í íbúðarhúsnæði fjölgað um 50%.

Það eru að verða fjögur ár síðan Samfylkingin lagði til bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Síðasta ríkisstjórn vildi ekkert með þær hafa. Óhætt er að fullyrða að aðstæður á fasteignamarkaði væru aðrar en blasa við nú ef þær tillögur hefðu gengið eftir og ef jafnaðarmenn væru við stjórn þessa lands. Nú höfum við lagt fram tillögur um byggingu að lágmarki þúsund íbúða á ári í félagslegu leigukerfi. Nú reynir á nýja ríkisstjórn.