146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. „En hefir nokkur heimsins þjóð hafnað tungu sinni“ sagði skáld á 18. öldinni og vísaði þá til þess að menn höfðu áhyggjur af því að danskan væri að yfirtaka íslenskuna. Við stöndum ekki í þeim sporum núna, en við stöndum hins vegar frammi fyrir því að enskan er að verða æ algengara mál sem fólk á öllum aldri talar. Það sem veldur mér áhyggjum og er ástæðan fyrir því að ég vek hér máls á því er að það er bara staðreynd að í grunnskólum tala ung börn og unglingar sín á milli ensku í kennslustundum.

Það er mjög gott að vera tvítyngdur eða hafa tök á fleiri en einu tungumáli, en hins vegar segir þetta okkur að við þurfum virkilega að vera á varðbergi. Við þurfum að gæta að því hvort við ætlum að sjá íslenskuna deyja út eða hvort við ætlum að vernda hana. Ein besta leiðin til þess er lestur. Ég hef áður komið inn á það. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að strax á fyrsta ári fari foreldrar að lesa fyrir börnin sín og haldi því áfram að lesa með þeim, lesa fyrir þau, hlusta á þau lesa. Ég tel að hlutverk foreldra sé hvað mest þarna. Síðan kemur auðvitað að skólunum að styðja við bakið á lestrarkunnáttu Íslendinga og styrkja þannig tungumálið.

Tungumálið er eitthvað sem við eigum. Ef við glutrum því niður þá er ekki víst að við munum ná að láta það lifna við aftur. Mér dettur í hug gelískan sem er útdautt tungumál en er samt (Forseti hringir.) stolt Skota og Íra og þeir leggja áherslu á að halda við.