146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Sú mynd sem er að dragast upp af kaupum nokkurra vogunarsjóða á Arion banka, sem kallaður hefur verið kerfislega mikilvæg fjármálastofnun, verður sífellt undarlegri. Nú ber ekki að skilja það sem ég segi hér á eftir sem almennt nöldur út í erlenda fjárfesta, þeir eru velkomnir á sama hátt og við Íslendingar viljum geta fjárfest í útlöndum. Ég efast þó um að við munum kaupa kerfislega mikilvægar fjármálastofnanir í öðru landi. En látum það liggja á milli hluta.

Það vekur sérstaka athygli að talsmenn kaupanna hafa hvergi dregið af sér við að lýsa þeim kostum sem það hefur í för með sér að fá hingað erlenda fjárfesta. Þar fara fremstir meðal jafningja forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem hvor um sig virðist fá í hnén við það eitt að heyra útlensku.

Hæstv. forseti. Komið hefur í ljós að einn kaupenda er sjóður sem hefur orðið uppvís að glæpum í Afríku og þurft að greiða milljarða í sektir. Ofan í kaupið hefur sá sjóður verið settur í ruslflokk í lánshæfismati og horfurnar eru slæmar. Fréttastofa RÚV greindi svo frá því í gærkvöldi að slóð eignarhalds tveggja sjóða, sem samtals keyptu 17% hlut í Arion banka, endi á Cayman-eyjum. Bankastjóri Arion banka sló heldur ekki af þegar hann lýsti því yfir ábúðarfullur að hér ættu í hlut alvörufjárfestar. Hann bætti reyndar við, með leyfi forseta:

„Bankinn hafði ekki tök á því að vita hvaða persónur standa að baki sjóðnum sem keypti tæplega 30% hlut í Arion banka.“

Sem sagt: Þótt hann viti ekki hvaða persónur standa hér að baki treystir hann sér til að fullyrða að þetta séu alvörufjárfestar. Það er vel af sér vikið. En auðvitað er manninum vorkunn, hann talar ekki niður húsbændur sína.

Hæstv. forseti. Ég held að orðin „leikhús fáránleikans“ hafi verið notuð af minna tilefni. Ég tek undir með hv. þm. Theodóru S. Þorsteinsdóttur: Þjóðin á betra skilið. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )