146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hv. þm. Óli Björn Kárason hreyfir hérna stóru máli sem er allrar athygli vert. Það snertir auðvitað hagsmuni okkar allra með beinum og óbeinum hætti, ýmsum hætti, jafnvel fjárhag ríkissjóðs, fjárfestingar innan lands og utan. Ég vil aðeins taka upp þráðinn þar að við megum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir eru nokkurs konar tryggingafélög fyrir okkur og eiga fyrst og fremst að tryggja okkur áhyggjulaust ævikvöld og síðan eftir atvikum örorkulífeyri eða maka- og barnalífeyri. Það er grundvallaratriði sem við þurfum að hafa í huga. Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir minntist á þá borga sumir mikið inn og fá aldrei neitt út og aðrir borga lítið inn og fá mikið út, þannig að þetta er samtryggingakerfi.

Þetta er samtryggingakerfi sem hvílir á grunni kjarasamninga, fyrst frá 1969 og síðan aftur 1995. Í því kerfi þar sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu, eins og hefur verið minnst á, eru ákvæði um það hvernig þeim skuli stjórnað. Að minnsta kosti milli þeirra aðila hafa ekki verið uppi deilur um það fyrirkomulag og í öllum aðalatriðum sýnist manni að það hafi gengið vel. Það eru sumir sjóðir sem eru með annað fyrirkomulag. Það hefur ekkert endilega gefist betur.

Það er viss hætta á því að það geti orðið togstreita um það hvað eigi að gera við fé sjóðanna milli kynslóða, þannig að þetta er mjög vandasamt verk. Engu að síður held ég að mjög mikilvægt sé að skoða þetta mjög vel. Ég held við þurfum þá að vanda það mjög vel svo að við séum alveg viss um að við fáum örugglega betra kerfi (Forseti hringir.) sem hefur ekki einhverjar hliðarverkanir sem eru jafnvel enn verri en gallarnir í núverandi kerfi.