146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku þeirra í þessari áhugaverðu umræðu. Ég vil víkja að nokkrum þáttum sem komu upp. Hér var nefnt samfélagslegt hlutverk sjóðanna. Ég tel að það megi alveg hugsa það að sjóðir móti sér samfélagsstefnu en hins vegar er það vald vandmeðfarið. Ég hygg að það sé hins vegar ekki gott að þeir eyði miklu til samfélagslegra verkefna. Ég held að það sé verkefni ríkisins að sjá um samfélagsleg verkefni.

Varðandi samkeppnismál vék hv. þm. Teitur Björn Einarsson að því. Það er rétt að vegna þess hve þröngir fjárfestingarkostir hafa verið hér á landi þá eru lífeyrissjóðir oft hluthafar í mörgum félögum á samkeppnismarkaði. Ég þekki hins vegar ekki til þess að lífeyrissjóðirnir hafi gefið þeim stjórnarmönnum sem hugsanlega hafa verið kosnir fyrir tilstilli þeirra neinar leiðbeiningar um það hvernig þeir eigi að hegða sér innan stjórnarinnar.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur um það að læsing sjóðanna hér inni á markaðnum hefur leitt til skekkingar á ýmsum mörkuðum, t.d. á húsnæðismarkaði. Það má líka bæta því við sem hv. þingmenn hafa sagt að það á heil landsframleiðsla eftir að bætast við lífeyrissjóðina á næsta áratug eða svo. Það skiptir miklu máli að henni sé vel varið og skynsamlega ávaxtað.

Loks vil ég ræða um ávöxtunarkröfu sem var nefnd. Það er í raun og veru engin ávöxtunarkrafa á lífeyrissjóði. Talan 3,5% er sú ávöxtun sem sjóðir hafa náð að meðaltali yfir langan tíma, en í raun og veru ná þeir bara þeirri ávöxtun sem best gefst á hverjum tíma miðað við stefnu þeirra.

Ég tek að lokum undir það með hv. frummælanda (Forseti hringir.) að traust skiptir miklu máli og að sátt sé um þetta mikilvæga kerfi.