146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að meta það í meðförum þingsins hvort það frumvarp sem hér er undir hentar í þær aðgerðir sem hv. þingmaður vitnar til. Hér er verið að nálgast mjög afmarkaðan hluta sem er kenndur við bankaskattinn og þá tekjuminnkun sem varð hjá sveitarfélögum við það skattfrelsi sem veitt var á síðasta kjörtímabili og er í gildi. Verið er að nálgast þann hluta hvernig við eigum að skipta ákveðnum tekjuauka Jöfnunarsjóðs, sem varð til vegna innleysingar á séreignarsparnaði, og hvort það eigi að fara í hlutfalli við tekjutap sveitarfélaganna í útsvarstekjum eða hvort það eigi að fara að reglum Jöfnunarsjóðsins að öðru jöfnu. Menn verða að meta hvort þau atriði sem hv. þingmaður vitnar til, sem eru öll góð og gild, eigi heima í frumvarpinu eða hvort eðlilegt sé að nálgast það á annan hátt. Ég tel að við séum einmitt að vinna við það vandamál núna þvert á ráðuneyti. Lagt er upp með það að sú vinna taki ekki langan tíma vegna þess að málið er brýnt og við því þarf að bregðast sem fyrst.