146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu sína. Ég gat nú ekki staðist að ræða hér við sessunaut minn, sem frægt er orðið.

Mér finnst athyglisvert að hlusta á hv. þingmann og hugmyndir hans um gjaldtöku almennt. Ég efa ekki að við eigum eftir að ræða þau mál frekar þegar líður á kjörtímabilið. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á og við höfum nefnt hér nokkur í pontu, er það ekki beint efni þessa frumvarps. En ég hef þó litið á það þannig að þetta væri fyrsta skrefið. Það er í það minnsta búið að rjúfa einhvern múr, eða hvernig sem má orða það.

En hv. þingmaður talar um gjaldtöku sem stýringartæki og kom ágætlega inn á flóknar spurningar um það. Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í hvernig hann sér fyrir sér að slíkri gjaldtöku yrði háttað. Yrði það eins og þetta er hér, á forræði sveitarfélaga á hverjum stað? Eða yrði það meira samræmd gjaldtaka þar sem stýrt væri með gjaldtökunni og reynt að beina fólki á einhvern ákveðinn stað? Yrði það einfaldlega þannig að sett yrði upp eitthvert gjald og síðan réði markaðurinn eða fólkið sjálft hvert það færi? Ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér að orðlengja þetta frekar hér en ég held að þetta sé mál sem við þurfum að fara að ræða betur.