146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

258. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það sé að sjálfsögðu rétt. Það væri æskilegt að samhliða svona breytingum myndum við veita frekari upplýsingar til þeirra sem um ræðir. Ég sé kannski ekki hvernig ég get tengt það efni þessa frumvarps. Þetta frumvarp er um pólitísk réttindi. Svo hef ég ákveðnar væntingar til þess að um leið og ákveðinn hópur getur kosið í kosningum til sveitarstjórna muni ákveðnir hagaðilar, sem eru þá viðkomandi pólitískir flokkar, sjá hag sinn í því að ná sérstaklega til þess hóps á sama hátt og þeir sjá hag sinn í því að ná til allra annarra hópa sem þeir óska eftir að muni kjósa sig.

Ég hef ákveðna upplifun af þessu starfi sem stjórnmálamaður. Miðað er við fimm ár og það er það langur tími að oftast þegar menn halda fund á einhverju tungumáli þurfa flestir þeirra sem mæta kannski ekkert sérstaklega á því að halda að upplýsingar séu veittar á móðurmáli þeirra. Þeir eru bara farnir að tala íslensku ansi vel.

Jú, ég held að þetta sé mikilvægt. En eins og ég segi vænti ég þess að hagaðilarnir, stjórnmálaflokkarnir, muni sjá um að veita ákveðnar upplýsingar í þessu samhengi.