146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

Klíníkin og stytting biðlista.

[10:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þarf eiginlega dálítið að vitna til orða minna í svörum við fyrirspurnum hv. þingmanna hér á undan. Það erindi sem hefur helst legið fyrir frá Klíníkinni, fyrst við ræðum sérstaklega um málefni einnar stofu sérfræðinga umfram aðrar, er þátttaka í biðlistaátaki sem við erum að fara í núna aftur annað árið af þremur með fjárveitingum sem voru sérstaklega ákveðnar á Alþingi til þess að stytta biðlista. Embætti landlæknis hefur skilgreint fimm tegundir aðgerða sem þurfi að reyna að vinna á biðlistum í. Það eru liðskiptaaðgerðir, hjartaþræðingar, sjónhimnuaðgerðir og ákveðnar aðgerðir í kvenlækningum, ef ég man rétt. Það hefur verið í skoðun hjá mér og hjá heilbrigðisráðuneytinu hvernig væri best að koma því átaki fyrir. Niðurstaðan er sú að við höfum haft samband við sömu aðila, sömu stofnanir og tóku þátt í biðlistaátakinu á síðasta ári. Það eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og þegar kemur að augnaðgerðum höfum við einnig talað við fyrirtækin Sjónlag og LaserSjón sem tóku þátt í verkefninu á síðasta ári.

Það hefur verið sent erindi til þessara aðila. Við erum að vonast til að hægt verði að skrifa undir samninga um þessar aðgerðir þannig að hægt sé að vinna (Forseti hringir.) vel á biðlistunum. Við ætlum að fylgjast vel með því hvernig gengur og skoða stöðuna aftur eftir fimm mánuði til þess að lenda ekki í tímahraki þannig að ekki takist að klára þær aðgerðir sem þarf í átakinu.