146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Aftur langar mig að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu. Ég verð að skjóta inn hrósi á hæstv. ráðherra, ég hef ekki upplifað annað en hann sé boðinn og búinn til að koma og ræða við okkur á þingi um þau mál sem undir hann heyra. Það er til fyrirmyndar.

Það hefur ýmislegt áhugavert komið hér fram. Í máli hæstv. ráðherra kom hann inn á það að það væri ekki ráðherra sjálfs að fjármagna samgönguáætlun. Það er vissulega rétt í þrengsta skilningi verkaskiptingar, en að sjálfsögðu leggur ráðherrann línuna í samgönguáætlun sem samþykkt er í ríkisstjórn og lögð fyrir Alþingi. Það er ráðherrans að berjast fyrir þeim fjármunum sem hann vill sjá í samgöngumálin. Ég verð að segja fyrir mína parta, mér finnst dálítið skrýtið að það er einhvern veginn alveg sama hvernig árar í samfélaginu, það eru aldrei til fjármunir til þess að auka við samneysluna, til að auka við sameiginlegu verkefnin okkar. Ýmist er kreppa og það þarf að spara, eða það er þensla og það má ekki eyða. Það þarf alltaf að finna einhverjar aðrar leiðir en að fara í þá samneyslu sem við sem samfélag búum við.

Hér hefur verið gumað töluvert af því að fjármunir í samgöngumál hafi verið auknir svo gríðarlega að sjaldan hafi annað eins sést. En það þarf ekki annað en skoða fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram síðast til að sjá að á föstu verðlagi árið 2016 þá lækkuðu fjárheimildir Vegagerðarinnar. Það þarf að skoða nákvæmlega hvar þær eru eftir viðbætur, en þetta er ekki þessi gríðarlega viðbót sem ríkisstjórnin gumar af. Við erum undir 40 ára meðaltali sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Ég held að við ættum að fara varlega í að hreykja okkur fyrir hvað allt sé stórkostlegt og við séum að eyða miklum fjármunum í þetta og horfast í augu við stöðuna eins og hún er.