146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það er býsna fróðlegt að heyra hv. þingmenn tala um að þetta hafi ekki verið félagsleg aðgerð, akkúrat í þeim vandræðum sem við erum í núna, þegar við þurfum að grípa til félagslegra úrræða. Það er alveg rétt, hv. þingmaður, þetta var efnahagsleg aðgerð. En hvernig efnahagsleg aðgerð? Hún hleypti íbúðaverði upp. Hún mokaði peningum til hópa sem að hluta höfðu ekkert með þá að gera vegna þess að uppsveiflan, verðbólan á húsnæðismarkaði síðustu ár, hefur gefið fólki þetta mörgum sinnum til baka, kannski ekki mörgum sinnum en til baka aftur að minnsta kosti. Vel má vera að einhverjir hafi þurft á þessu að halda og við hefðum átt að fókusera á þann hóp, við hefðum átt að skoða þann hóp sem var að kaupa sér íbúð á árunum 2006–2008, sem lenti virkilega í þessu, sem missti íbúðirnar. Ég er ekki sammála hv. þingmanni, en ég virði hennar skoðun. En ég spyr: Telur hún að hægt hefði verið að nota þessa peninga öðruvísi?

Svo spyr ég líka, af því að hún nefndi byggingareglugerðina — það er búið að slaka talsvert á henni og við erum í raun farin að gefa leyfi fyrir húsnæði sem býður upp á orkusóun. Við erum farin að ganga býsna langt í að gera húsnæði lítið. Við getum ekki gengið mikið lengra áður en við förum að ganga á rétt fólks sem er hreyfihamlað og annarra slíkra hópa. Það eru líka ótrúleg verðmæti sem felast í því fyrir samfélagið, efnahagsleg, að aldrað fólk geti búið mjög lengi í sínu húsi. Hvað á hv. þingmaður nákvæmlega við? Hvernig vill hún breyta reglugerðinni?