146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

mengun frá United Silicon.

[15:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. umhverfisráðherra er ekki í salnum og hæstv. forsætisráðherra ekki heldur til þess að svara fyrirspurn um málefni er lýtur að verksmiðju í Reykjanesbæ, United Silicon. Því langar mig að beina fyrirspurn minni er lýtur að þessum málaflokki til hæstv. heilbrigðisráðherra, því að hann er jú formaður eins flokks sem á sæti í þessari ríkisstjórn. Samþykkt hefur verið tillaga um meira samráð milli ráðherra um flókin málefni og töluvert var rætt í samningaviðræðum við myndun ríkisstjórnar að nauðsynlegt væri að meira samráð væri á milli ráðuneyta og ráðherra þegar kæmi að því að taka á málefnum sem spanna mörg svið.

Í þessu tilfelli fellur einn þáttur þessa máls undir málasvið hæstv. heilbrigðisráðherra og varðar það heilsutjón sem íbúar bæjarfélagsins óttast að verða fyrir. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að að funda þvert á flokka eða þvert á ráðuneyti um þetta mál og hvernig bregðast skuli við því? Hefur það eitthvað verið rætt á ríkisstjórnarfundum hvort til standi að verða við óskum sveitarfélagsins um að verksmiðjunni verði lokað?