146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

kostnaðarþátttaka sjúklinga vegna sérfræðiþjónustu.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða fyrirspurn. Nú erum við að taka í gagnið nýtt kostnaðarþátttökukerfi sem unnið var af þverpólitískri nefnd sem skilaði af sér til heilbrigðisráðherra í mars 2015. Það er greiðslujöfnunarkerfi sem jafnan er kennt við Pétur H. Blöndal sálugan; hann er þingmaðurinn sem er skrifaður fyrir hugsuninni á bak við kerfið. Eins og hv. þingmaður benti á er það hannað til að dreifa kostnaðarþátttöku á sjúklinga þannig að þeir sem njóta mjög mikillar þjónustu greiði minna en ella, en þeir sem nota þjónustuna minna greiði að einhverju leyti meira. Auk þess var samkomulag um það — það var hluti af því þegar nýju lögin voru samþykkt í júní 2016, af öllum þingmönnum, ef ég man rétt, sem greiddu atkvæði — að bæta peningum inn í kerfið til þess að koma sérstaklega til móts við börn, aldraða og öryrkja.

Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, ég er sjálfur mikill aðdáandi kynjaðrar hagstjórnar og finnst að kynjagleraugun séu mjög mikilvæg þegar kemur að því að skoða málefni, bæði heilbrigðismál en ekki síður fjármál og excelinn. Ég verð að viðurkenna að almennt þegar ég horfi á heilbrigðisþjónustu og krankleika þá kyngreini ég hvorki þjónustuna né vandræðin, en ég veit að vissulega er sum heilbrigðisþjónusta háðari öðru kyninu en hinu. Ég hef ekki annað en orð hv. þingmanns fyrir þessum mismun sem mér þykir sláandi. Mér finnst vissulega ástæða til að skoða það betur og greina. Ég mun fagna þeirra vinnu og beita mér fyrir henni. Ég kem kannski betur að því í seinni ræðu.