146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

kostnaðarþátttaka sjúklinga vegna sérfræðiþjónustu.

[15:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég fagna því að fá að skoða þessar tölur betur. Það er alveg ljóst að í nýjum lögum um greiðsluþátttöku er það alls ekki ætlun löggjafans, ekki andi laganna, þvert á móti vil ég meina, að mismuna fólki eftir kyni eða öðru. Þvert á móti er löggjöfin sérstaklega hönnuð og sett fram til að reyna að jafna byrðarnar, bæði að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem þurfa að nota mikla og fjölbreytta heilbrigðisþjónustu þurfi að greiða sérstaklega mikið fyrir það, eins og brögð voru að í fyrra kerfi, því miður, en einnig að gera það þannig að reyna að hlífa þeim sem hallast standa við miklum kostnaði. Það var greint að það væru sérstaklega barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónusta barna, aldraðir og öryrkjar. Ég fagna þessari umræðu og hlakka til þess að halda henni áfram í betra tómi.