146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[15:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Þessi sérstaka umræða fjallar um innihald og tillögur sem finna má í skýrslu nefndar sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun á lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra, Óttari Proppé, fyrir að taka þátt í þessari umræðu með mér.

Umrædd skýrsla er umfangsmikil og vönduð yfirferð á núgildandi lögum ásamt tilmælum um hvernig þau megi bæta, t.d. með því að skipta þeim niður í þrenn sérlög, þ.e. lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, sérlög um þungunarrof og sérlög um ófrjósemisaðgerðir.

Þungunarrof er einmitt nýyrði sem umrædd nefnd leggur til að verði notað í stað orðsins fóstureyðing, en nýyrðið þykir lýsa aðgerðinni betur en hið gamla, ásamt því að vera hlutlausara í eðli sínu. Vil ég hér með lýsa stuðningi mínum við þá tillögu starfshópsins. Þó að skýrslan fjalli að einhverju leyti um kynheilbrigði og kynfrelsi karla ákvað sú sem hér stendur að afmarka umræðurnar við þungunarrof og kynfrelsi kvenna og þykir mér sú afmörkun ríma vel við meginniðurstöður nefndarinnar sem lúta að kynheilbrigði fólks, rétti einstaklingsins til að taka ákvörðun um barneign og mikilvægi þess að afmá úr lögunum alla mismunun.

Þungunarrof, kynfrelsi kvenna og afnám allrar mismununar, þá sérstaklega gagnvart fötluðum einstaklingum, eru að mínu mati mikilvægustu leiðarstefin um framhald þessarar umræðu og við heildarendurskoðun laga um þennan málaflokk sem ég tel afar mikilvæga. Ég fagna því orðum hæstv. heilbrigðisráðherra þess efnis að augljóst sé að endurskoða þurfi löggjöfina enda hafi hún ekki tekið breytingum í rúm 40 ár sem og þeim orðum hæstv. ráðherra sem finna má í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Samfélagið er gjörbreytt, viðhorfin önnur og forræðishyggja sem stendur sjálfsákvörðunarrétti kvenna fyrir þrifum ætti að heyra sögunni til.“

Markmið mitt með því að efna til þessarar sérstöku umræðu er að fá fram afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra gagnvart nokkrum þeim atriðum og tillögum sem fram koma í skýrslu nefndarinnar. Lúta þau m.a. að þeim tímaramma sem ráðherra sér fyrir sér að verði í kringum heildarendurskoðun laganna, hvort ráðherra taki í einu og öllu undir tillögur nefndarinnar eða hvort hann sé mótfallinn einhverjum þeirra tillagna sem þar koma fram og ef svo er hvaða tillögum nefndarinnar ráðherra sé mögulega andsnúinn.

Nefndin leggur m.a. til að konur fái sjálfar að taka ákvörðun um þungunarrof nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því, öfugt við núverandi fyrirkomulag þar sem ósk konu um fóstureyðingu þarfnast samþykkis læknis og félagsráðgjafa eða tveggja lækna eftir því sem við á. Eins er lagt til að úrskurðarnefnd um fóstureyðingu eftir 16. viku meðgöngu verði lögð niður og konum gefið sjálfsvald um að óska eftir þungunarrofi fram að 22. viku meðgöngu, þ.e. fram að því að fóstur hefur náð lífvænlegum þroska. Telur sú sem hér stendur að þetta fyrirkomulag standi til bóta og spyr ráðherra hvort hann muni breyta lögunum til samræmis við þessar tillögur nefndarinnar.

Nefndin leggur einnig til að lækka það aldurstakmark sem gildandi hefur verið um leyfi til ófrjósemisaðgerða, úr 25 ára í 18 ára til samræmis við lögræðislög og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins. Ég spyr ráðherra hvort hann sé fylgjandi þeirri afstöðu nefndarinnar.

Frú forseti. Helsta áhersla mín í þessum umræðum snýr þó að afnámi allrar mismununar í lögunum á grundvelli fötlunar. Þar vil ég sérstaklega vekja athygli á því að núverandi löggjöf brýtur á og vanvirðir kynfrelsi fatlaðra kvenna með ýmsu móti og saknaði ég þess að skýrsla nefndarinnar tæki á þeim ákvæðum með skýrari hætti.

Þó leggur nefndin til að fjarlægja þau ógeðfelldu og ólöglegu ákvæði sem finna má í núverandi löggjöf þess efnis að lögráðamaður geti ákveðið fyrir hönd lögræðissvipts einstaklings að hann skuli fara í ófrjósemisaðgerð vegna þeirrar röksemdar að hann sé, með leyfi forseta, „varanlega ófær um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða annarra geðtruflana“. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hyggist fjarlægja þessa nánast kynbótastefnu úr lögunum.

Annað dæmi um grófa mismunun gagnvart fötluðum er að finna í 2. tölulið 13. gr. núgildandi laga, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Sé kona vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða af öðrum ástæðum ófær um að gera sér grein fyrir nauðsyn aðgerðarinnar, þá er heimilt að veita leyfi til aðgerðarinnar samkvæmt umsókn lögráðamanns.“

Þetta ákvæði felur í sér skýlaust brot á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er snýr að kynfrelsi fatlaðra sem og jafnréttisákvæðum samningsins. Þess ber einnig að geta að sérlegur sendiherra Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum hefur ítrekað lýst því yfir að ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar sem framkvæmdar eru á einstaklingum gegn vilja þeirra eða án upplýsts samþykkis feli í sér pyndingar.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra að lokum hvort hann hyggist sjá til þess að þetta ákvæði verði afnumið úr lögunum.