146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:18]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir mjög greinargóð svör sem hann veitti hér.

Eins og fram hefur komið hjá öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa talað er rauði þráðurinn og grundvallaratriðið sem fram kemur í þessari skýrslu sjálfsákvörðunarréttur kvenna, að þær hafi sjálfsákvörðunarvald yfir eigin líkama. Mig langar líka að segja að við ræðum hér málefni sem margir hafa mjög misjafnar skoðanir á. Það sáum við m.a. af fréttaflutningi þegar skýrslan hafði verið kynnt í febrúar, að mig minnir. Því tel ég að það sé mjög góð ákvörðun hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að opna hana til kynningar, að fólk geti átt samtal og viðræður um efni hennar, því eins og ég sagði eru skoðanir mjög misjafnar.

Ég vil fagna því sem fram kemur í skýrslunni að auka eigi gæði t.d. kynfræðslu í skólum og auka símenntun þeirra kennara sem sinna þessum málum því að þarna erum við m.a. að ræða forvarnir og öll umræða um málið meðal ungmennanna okkar er góð og að þau hafi vitneskju sem stuðlar að auknu kynheilbrigði meðal þessa mikilvæga hóps í okkar góða samfélagi.

Síðan eru þarna atriði sem maður veit að eru mjög skiptar skoðanir á sem varða t.d. getnaðarvarnir til ungmenna án samráðs við foreldra og rýmri tíma vegna þungunarrofs. En ég fagna því verulega að þessi skýrsla sé komin út og þeim rauða þræði sem er í gegnum hana sem er sjálfsákvörðunarréttur kvenna.