146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá áhugaverðu umræðu sem hér hefur skapast og þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls. Eins vil ég fagna því að til standi heildarendurskoðun fyrir vorþing 2018 og fagna vilja hæstv. ráðherra gagnvart því að fara að góðum ráðum nefndarinnar. Ég vil þá gjarnan vita með hvaða móti ráðherra hyggst semja nýja löggjöf. Hæstv. ráðherra finnst mikilvægt að umbreytingin verði í samráði við alla landsmenn sem ég tek heils hugar undir. En ég spyr hvort endurskoðunin verði fullkomlega á forræði ráðherra eða hvort hann hyggist fara með það í þingið, jafnvel í þverpólitískum hópi þingmanna.

Annars má ég til með að ítreka tvær spurningar mínar til ráðherra. Ég spyr hvort ráðherra hyggist afnema ákvæði laganna er lúta að ófrjósemisaðgerðum á fötluðum einstaklingum án upplýsts samþykkis þeirra. Sömuleiðis hvort ráðherra hyggist afnema ákvæði laganna er lúta að fóstureyðingum á fötluðum konum án upplýsts samþykkis þeirra.

Í ljósi þess tímaramma sem ráðherra hefur gefið út, telur ráðherra ekki tilefni til þess að afnema þessi ákvæði fyrr, ef ekki strax, eða grípa með öðru móti inn í til þess að tryggja að ófrjósemisaðgerðir sem og fóstureyðingar verði aldrei framkvæmdar án upplýsts samþykkis og vilja þeirra sem í þær fara?

Í ljósi ummæla hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur um skort á upplýsingum um framkvæmd slíkra aðgerða, mun ráðherra afla sér upplýsinga um umfang og fjölda ófrjósemisaðgerða sem og fóstureyðinga sem framkvæmdar hafa verið án upplýsts samþykkis viðkomandi?