146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að setja þetta mikilvæga mál á dagskrá þingsins. Það er sannarlega af ýmsu að taka en mig langar til að beina athyglinni að málefnum hinsegin eldri borgara, því að eldri borgarar geta líka verið hinsegin.

Fyrr á þessu ári stofnuðu Samtökin ´78 sérstakan samstarfshóp um málefni þessa hóps. Kveikjan að stofnuninni var síaukinn þungi í umræðunni um að það vantaði stórlega upp á fagþekkingu á málefnum hinsegin aldraðs fólks. Þar er líka bent á að í nýútgefinni starfsáætlun um málefni eldri borgara sé ekki minnst orði á hinsegin fólk.

Sú kynslóð hinsegin fólks sem barðist hér fyrir réttindum þessa hóps, og á ekki síst heiðurinn af því að Ísland hefur nú um nokkurt skeið getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi, og það sem er náttúrlega mest um vert; á heimavígvelli, fyrir að vera í fararbroddi þjóða þegar kemur að réttindum samkynhneigðra, er nú komin á efri ár. Hún hefur staðið í eldlínunni og man tímana tvenna. Það er sárara en tárum taki ef rétt er að innan þessa hóps séu einstaklingar sem eigi erfitt með að fóta sig þegar komið er á öldrunarheimili þar sem þar skortir fagþekkingu og almennan skilning á málefnum þeirra. Það er óásættanlegt fyrir okkur sem samfélag að til séu dæmi um að eldri borgarar fari hreinlega aftur inn í skápinn, svo að notað sé þekkt orðalag, þar sem þeir mæta ekki skilningi á nýju heimili.

Við þurfum líka að hafa í huga að hjá þessari kynslóð getur samkynhneigð enn verið feimnismál. Og það er þeirri kynslóð að þakka að hún er það ekki í dag. Þetta fólk er ekki endilega allt í stakk búið til að fara á gamalsaldri enn og aftur að vera með vesen, berjast fyrir réttindum sínum, sómasamlegum aðstæðum og því að almennt sé kynhneigð þess mætt með virðingu og skilningi.

Virðulegur forseti og hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég hvet okkur og (Forseti hringir.) alla þá sem koma að málefnum eldri borgara til að leggja við eyrun þegar starfshópur um málefni hinsegin eldri borgara fer af stað með fræðslu sína.