146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

bann við kjarnorkuvopnum.

53. mál
[18:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Nú hefði verið gaman að hafa lengri ræðutíma en tvær mínútur. En það hef ég víst ekki.

Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka af öll tvímæli um að það hafi ekki verið umræðuefnið sem dró svarið. Það er mikilvægt að það komi fram. En mig langar líka að taka fram að það var ekki einungis vegna tafa á svörum við þessari fyrirspurn sem ég nefndi þetta heldur einnig vegna annarra fyrirspurna um skyld mál sem ég hef lagt fram.

Hæstv. ráðherra segist vilja nota þá samninga sem nú þegar eru í gildi og vísar þar til NPT-samningsins. Mér eru það vonbrigði því sannast sagna finnst mér sá samningur ekki hafa skilað miklum árangri. Líkt og hér hefur komið fram hefur löndunum sem hafa yfir að ráða kjarnorkuvopnum fjölgað. Þó svo að einhver fækkun á kjarnorkuvopnum í heiminum eigi sér stað er enn þá til svo mikið af vopnum að það er mörgum sinnum hægt að eyða heiminum þannig að það þarf drastískari aðgerðir.

Kjarnorkuvopnaveldin myndu ekki taka þátt í þessum umræðum, segir ráðherra. Jú, það virðist vera svoleiðis. En það eru hins vegar meira en 100 önnur ríki í heiminum sem taka þátt og sýna vilja sinn með því að taka þátt. Það er raunar áberandi þegar listinn yfir þátttökulöndin er skoðaður að þar vantar t.d. meira og minna allar þær þjóðir sem eru aðilar að NATO. Það held ég að segi sína sögu um þetta hernaðarbandalag sem við erum aðilar að sem áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. En það er þó undantekning á þessu, þ.e. Holland sem er í NATO sendi sinn fulltrúa á þennan fund. (Forseti hringir.) Það finnst mér jákvætt.

Það verður aftur haldinn fundur 15. júní til 7. júlí. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra um að endurskoða hug sinn því við eigum annað tækifæri og getum þá sent okkar fulltrúa til að taka þátt í þessum mikilvægu umræðum.