146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

rannsókn á fangaflugi bandarískra yfirvalda um Ísland.

124. mál
[18:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En ég spyr mig enn þá hvort almennilega hafi verið staðið að þessari fyrirhuguðu rannsókn. Hæstv. ráðherra segir að aðgengi að óritskoðaðri skýrslu Bandaríkjaþings hafi verið hafnað og ber því við að stjórnvöld hafi borið við trúnaði. Mig rekur þó minni til þess að þegar þessi umræða átti sér stað hafi bandarísk yfirvöld lýst yfir vilja sínum til að veita löndum aðgengi að þeim hluta skýrslunnar sem sneri að þeim löndum sérstaklega. Ég vil því ítreka spurninguna sem ég bar fram áðan, hvort íslensk stjórnvöld, þ.e. utanríkisráðuneytið, hafi beðið sérstaklega um aðgang að þeim hluta skýrslunnar er varðaði Ísland beint en ekki að öðrum óritskoðuðum hlutum skýrslunnar.

Loks vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra sem sagði í ræðu sinni að yfirvöld hafi ítrekað gert grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart bandarískum yfirvöldum í kjölfar þessara skýrslna og umræðu. Ég spyr mig hvort bandarísk stjórnvöld hafi yfir höfuð verið spurð hvort fangar hafi verið um borð í fangaflugvélum sem lentu hér, eða um borð í meintum fangaflugvélum eins og hæstv. ráðherra kýs að kalla þær. Voru bandarísk stjórnvöld einhvern tíma spurð af íslenskum stjórnvöldum hvort fangar hafi verið um borð í flugvélum sem tengdust bandarísku alríkisþjónustunni og lentu hér á landi?

Svo ég taki það alveg skýrt fram: Hefur utanríkisráðuneytið beðið um aðgang að þeim hluta skýrslu bandaríska öldungardeildarþingsins er varðar Ísland einungis en ekki að allri skýrslunni óritskoðaðri?