146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

framkvæmd þingsályktunartillögu um áningarstaði Vegagerðarinnar.

158. mál
[19:00]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir áhyggjur af afdrifum þessa máls. Það eru fleiri ferðamenn á vegum landsins en sauðfé. Haldnar hafa verið langar ræður um lausagöngu þess. Áningarstaðir og síðan staðir þar sem gefin eru tækifæri til ljósmyndunar eru brýn nauðsyn. Ástandið eins og það er nú eru kyrrstæðir bílar óstaðkunnugra einstaklinga á víð og dreif í holtum og hæðum. Það stofnar þeim einstaklingum og svo öðrum vegfarendum í mikla hættu, hættu sem er óþörf og létt verk og löðurmannlegt að byrgja brunninn.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra sammála því að aðgerða sé þörf strax í sumar?