146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það svo að í 7. gr. laga um opinber fjármál á að setja niður afkomumarkmið og markmið um niðurgreiðslu skulda, en samkvæmt lögum er ekki nauðsynlegt að setja útgjaldaþak. Hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn ákveða þó að setja í sína fjármálastefnu til næstu fimm ára útgjaldaþak. Því má ekki breyta nema upp komi stórkostlegar hörmungar hér á landi. 0,5% af vergri landsframleiðslu eru um það bil 15 milljarðar. Gert er ráð fyrir því, samkvæmt greinargerð með stefnunni, að útgjöldin séu 41% á árinu 2017. Ef engin breyting verður á vergri landsframleiðslu er svigrúmið 15 milljarðar. Ef vöxtur verður er í lagi að hafa svona reglu en ef samdráttur verður fer hún að bíta. (Forseti hringir.) Ég spyr því hv. þingmann: Hvers vegna er ákveðið að setja útgjaldareglu?