146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er afar óskynsamlegt þegar við erum með atvinnugrein í svo miklum vexti eins og ferðaþjónustan er, að búa henni ekki bara almenn rekstrarskilyrði. Hún vex svo mikið að hún ryður öðrum atvinnugreinum frá. Hún býr við skattumhverfi og rekstrarumhverfi sem er hagfelldara en aðrar greinar búa við.

Mér finnst blasa við að við eigum að færa virðisaukaskatt á gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn upp í almennt virðisaukaskattsþrep. Það er svo óskynsamlegt að þessi hluti þjónustunnar sé í 11% virðisaukaskattsþrepi eins og matur, orka, bækur. Á meðan það er svona er grenjað undan því að það vanti fjármagn til að byggja upp innviði. Hver skilur það? Auðvitað má ekki gera þessar breytingar með mánaðarfyrirvara. Þó að við tækjum 18 mánuði til að breyta gjaldtöku, eins og ferðaþjónustan sjálf segir að hún þurfi, gerum það. Gefum greininni tækifæri til að búa sig undir þá breytingu. Við getum í millitíðinni sett á komugjöld en það myndi ekki gefa okkur nema svona einn fimmta, í mesta lagi, af því sem virðisaukaskattsbreytingin myndi gefa. Hún gæti gengið bæði til ríkis og sveitarfélaga.