146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er reyndar alveg rétt að eignir, eignayfirlit og eignastaða eiga að vera í stefnunni af því að eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðs þarf því að halda því við til þess að hægt sé að meta ástand eigna og annað slíkt. En við vitum að vissulega er verið að vinna það í ráðuneytinu. Við höfum fengið upplýsingar um það og er það vel. En ég velti því fyrir mér, af því að hæstv. ráðherra situr hér, hvort það séu hugmyndir um að leggja fram þetta eignayfirlit af því að hann birtir ekki aðra stefnu á þessu kjörtímabili, og með hvaða hætti það verður þá gert, af því að það var ekki tilbúið núna.

Svo langar mig til þess að spyrja hv. þingmann um það sem fram kemur hjá fjármálaráðinu. Hv. þingmaður kom aðeins inn á sviðsmyndargreiningu, útgjaldaregluna og annað slíkt. Tekur hann undir það að útgjaldareglan sé í rauninni (Forseti hringir.) pólitískt viðfangsefni, þ.e. að meta hver útgjöld hins opinbera á eiga að vera, og að ekki eigi að festa það hér í plagginu, eins og hér er verið að gera?