146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi spurning ætti aðallega að fara til Hönnu Katrínar Friðriksson, en ég býst við að hv. þingmaður geti svarað, því að þetta á við um stefnu ríkisstjórnarinnar í rauninni, þ.e. þessi fastgengisstefna.

Þegar við höfum fastgengisstefnu væri hagkvæmt að taka lán erlendis því að þá gætum við nýtt okkur það að erlendis eru lágir vextir, en kostnaðurinn kemur væntanlega samt fram í því að við þurfum að viðhalda fastgengisstefnunni, og það er ákveðinn kostnaður þar á bak við. Þá er bara spurningin hvort kostnaður við að viðhalda fastgengisstefnunni sé hærri eða lægri en vaxtamismunurinn sem við græðum á því að vera með innlend lán á háum vöxtum versus að vera með erlend lán á lágum vöxtum. Þar verður þó að taka tillit til þess að lánin hér innan lands eru, eftir því sem ég best veit, velflest að fara til lífeyrissjóðanna, og væri áhugavert að vita hvort það hefur í rauninni jákvæð áhrif á langtímaskuldbindingar okkar hvað varðar t.d. lífeyrissjóðina, eða bara lífeyrissjóðina almennt til uppbyggingar þeirra eftir hrunið, því að þetta er innanlandsflæði og hefur áhrif á það. Og við myndum þá þurfa hálfgert að viðurkenna það að þetta er ákveðin aukaskattinnheimta til bjargar lífeyrissjóðunum. Það er að því leyti til jákvætt, ef við bara viðurkennum það alveg klárt þannig séð. Það er sú sýn á þessa stefnu sem mér finnst vanta og tilfinnanlega einmitt með það að stefnu vantar varðandi langtímaskuldbindingar, sem ég held að þetta hafi mikil áhrif á og sé rosalega mikilvægt að vita af. Mér þætti vænt um að fá álit þingmanns á því.