146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu frá hv. þingmanni. Eina rétta svarið við þessu er bara: Ég veit það ekki.

Ég skil ekki hvað fjármálaráð á að vera að gera. Það kemur hérna með góðar ábendingar, t.d. þegar talað er um, með leyfi forseta:

„Án frekari sundurliðunar afkomu hins opinbera, í frum- og fjármagnsjöfnuð, upplýsingar um sértækar tekju- og útgjaldaaðgerðir sem og leiðréttingu fyrir áhrifum hagsveiflunnar er undirliggjandi afkoma og raunverulegt aðhaldsstig því óljóst.“

Þetta er t.d. eitthvað sem hefði verið hægt að taka til frekari athugunar. En stundum virðumst við búa til skýjaborgir, drauma, en síðan fylgir ekki fjármagn, ekki metnaður til að gera þetta almennilega. Ég held að fjármálaráð hafi í sjálfu sér unnið vinnuna sína afbragðsvel. Það á hrós skilið fyrir það. En hins vegar virðist ekki tekið mark á því. Þetta er svolítið gegnumgangandi í íslenskri pólitík.