146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir ræðuna. Ég get nú ekki tekið undir það að ekki hafi verið veittur eins mikill tími og mögulegt var. Ég lagði þessa fjármálastefnu fram á fyrsta degi þingsins og mælti mjög fljótlega fyrir henni. Þingið hefur því haft stefnuna til meðferðar í tvo mánuði. Það væri mjög áhugavert að vita hve langan tíma sé þá eðlilegt að veita. Þetta var sá lengsti tími sem við gátum veitt og ég reyndi að fara þar eftir bókstaf laganna sem sagði að stefnuna skyldi leggja fram eins fljótt og auðið væri.

Ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér umsagnir um frumvarpið. Eitt vakti athygli mína. Ég held ég fari rétt með að enginn umsagnaraðili hafi sagt að aðhald væri of mikið í fjármálastefnunni. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvaða telur hann eðlilegt aðhald? Ef 1,5% er lágmark, hvað telur hv. þingmaður þá eðlilegt aðhald?

Ég vil í öðru lagi spyrja hv. þingmann að því, af því að hann nefnir hér sveltistefnu í opinberum fjármálum: Nú hækkuðu útgjöld hins opinbera eða ríkisútgjöld að raunvirði um 8% í fyrra. Hvað telur hv. þingmaður eðlilega raunaukningu ef við hugsum til dæmis um sjálfbærni sem er eitt af þeim hugtökum sem er talað um í lögum um opinber fjármál?