146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur margt spaklegt verið mælt hér í kvöld, annað svo sem miður. Ég veit ekki alveg hverju ég get bætt við þessa umræðu. Ég velti því fyrir mér um hríð áðan hvort ég ætti að flytja mál mitt í táknmálsdansi til að reyna að ná sem best til hv. þingheims. En þar sem hér í salnum er sérfræðingur á því sviði lagði ég ekki í það. Ég ætla að halda mig við stóru myndina, við pólitíkina. Þrátt fyrir að mér heyrist á hæstv. ráðherra að hann vilji frekar krefja hv. þingmenn svara um nákvæma prósentu á hinu og þessu ætla ég að leyfa mér að vera í stóru línunum.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er stærðfræðingur ef ég man rétt. Ég hef alltaf borið óttablandna virðingu fyrir stærðfræðingum. Sjálfur valdi ég mér braut í menntaskóla með tilliti til þess hvar væri minnst stærðfræðikennsla. En það er hægt að lesa sér til um hluti, verða sér úti um tölur, þrátt fyrir að Alþingi hafi því miður ekki á að skipa sömu sérfræðingum á því sviði og ráðuneytin og nauðsynlegt væri fyrir Alþingi með þingmenn með stærðfræðikunnáttu eins og mína. En ég kann að leita mér upplýsinga.

Hver er staðan? Hver er pólitíkin? Hverjar eru þessar stóru línur? Við skulum átta okkur á að það er verið að leggja línurnar í fjármálastefnu Íslands næstu fimm árin. Það er dálítið mikið undir. Á síðustu sex árum miðað við árið 2016 tvöfaldaðist eigið fé Íslendinga, jókst um tæpa 1.400 milljarða. Af hreinni eign sem orðið hafði til frá árinu 2010 fengu ríkustu 10% landsmanna 4 af hverjum 10 krónum. Í lok árs 2015 nam eigið fé Íslendinga tæpum 3.000 milljörðum kr., jókst um 430 milljarða á því ári. Ríkasta tíund landsmanna átti 1.880 milljarða af þeirri eign. 64%. Þriðjungurinn sem eftir var skiptist á milli hinna 90%. Fjármagnstekjur eða vaxtatekjur auk söluhagnaðar, arðs og tekna af atvinnurekstri árið 2015 námu 114,2 milljörðum kr. í heild. 79,2 milljarðar af því runnu til ríkustu 10% landsmanna. Rúmir 13,3 milljarðar til næstu tíundar þar á eftir þannig að ríkustu 20% landsmanna höfðu 81% af öllum fjármagnstekjum. Ríkustu 10% Íslendinga eiga líka 86% allra verðbréfanna. 361,5 milljarða af 422,3. Ég ítreka að þetta er miðað við árið 2015. 93% af virðisaukanum af þessum verðbréfum fóru til ríkustu 20 þúsund Íslendinganna.

Tökum þetta saman. Ríkustu 10% þjóðarinnar eiga 64% af öllu eigin fé Íslands, fengu 69,4% af öllum fjármagnstekjum árið 2015, eiga 86% allra verðbréfa í landinu, fengu 93% af öllum virðisauka af þeim verðbréfum.

Þetta var staðan undir lok valdatíðar síðustu ríkisstjórnar. Hvað gerði sú hæstv. ríkisstjórn? Hún fór í skattkerfisbreytingar sem gögnuðust 20% ríkustu Íslendingunum best. Hún jók á þennan ójöfnuð, bjó til þá stöðu sem ég var að fara yfir og jók á ójöfnuðinn. Hún lækkaði veiðigjöldin, lækkaði álögur á þá sem best höfðu það. Um síðustu áramót, til að hnykkja á þessari vegferð sinni, afnam hún milliþrepið og jók þannig enn frekar á ójöfnuð eða dró úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins.

Þetta er staðan þegar hæstv. fjármálaráðherra tekur við embætti í janúar sl. Þessi ójafnaðarmynd sem ég er búinn að draga upp og hefur verið að teiknast upp allan valdatíma síðustu ríkisstjórnar, er staðan þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sest í stólinn og kynnir nýja ríkisstjórn. Hverjar eru áherslur nýrrar ríkisstjórnar? Jafnvægi og framsýni. Tvö lykilorð hæstv. ríkisstjórnar. Jafnvægi og framsýni. Jafnvægi um þennan ójöfnuð sem búið er að skapa hér.

Ég heyrði fáa af þeim stjórnmálamönnum eða þingmönnum og hæstv. ráðherrum sem sitja í núverandi ríkisstjórn, sem ekki tilheyrðu Sjálfstæðisflokknum, tala hátt um það í kosningabaráttunni að helsta baráttumál þeirra væri að standa vörð um skattkerfi Bjarna Benediktssonar. Að fjármálakerfið sem Bjarni Benediktsson, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, hafði teiknað upp skyldi varið hvað sem það kostaði. En sú er raunin. Það er það sem hefur gerst. Það er það sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra hefur gert í embætti. Lagt fram sömu stefnu, sömu niðurskurðar- og sveltistefnu, sömu óréttlætisstefnuna, sömu ójafnaðarstefnuna og síðasta ríkisstjórn stóð fyrir.

Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum. Við lagasetningu þarf að gæta þess að fulltrúar ólíkra sjónarmiða hafi rúman tíma til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Viðmót og aðgengi að stjórnsýslu verður bætt, markviss skref stigin til þess að opna bókhald ríkisins og upplýsingaskylda opinberra aðila gagnvart almenningi efld. Ríkisstjórnin mun í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gagnsæja stjórnsýslu.“ — Nema þegar kemur að fimm ára ríkisfjármálastefnu, hefði mátt hnýta aftan við.

Það hefur verið farið ágætlega yfir hvernig staðið hefur verið að þessari stefnu. Hvernig excel-hugsun um dagsetningu framlagningar skiptir meira máli en sú pólitíska stefna sem á að stýra landinu eftir næstu fimm árin. Hvað er það sem við erum að taka hér til umræðu? Ég verð að játa að ég þurfti að lesa mér aðeins til um það. Fjármálastefna, fjármálaáætlun, fjárlög, ný lög um opinber fjármál. Hvað er þetta allt saman?

Ég er einfaldur maður og ekki stærðfræðingur eins og ég hef af einhverjum ástæðum komið oft inn á í mínu máli. En ég kann að lesa. Hvað segir í álitsgerð fjármálaráðs um þessa tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022? Það stendur meira að segja á spássíunum, svona fyrir okkur tossana sem nennum ekki að lesa í gegnum allan textann. Það er búið að draga þetta út fyrir okkur, með leyfi forseta:

„Samhengi er milli fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlaga.“

Gott. Samhengi er alltaf gott.

„Við gerð fjármálaáætlunar skal fjármálastefna lögð til grundvallar.“

„Fjármálastefna skal lögð til grundvallar fjármálaáætlunum.“

Þarna erum við komin í hring.

„Fjármálaáætlun liggur til grundvallar fjárlögum og fjárhagsáætlana sveitarfélaga.“

„Möguleikar til endurskoðunar fjármálastefnu eru afar takmarkaðir …“

„… og í henni felst því mikil skuldbinding.“

Það er það sem við erum að gera hér í kvöld, hv. þingmenn. Við erum að setja rammann fyrir fjármál hins opinbera næstu fimm árin. Sem hefur áhrif á fjármálaáætlunina, sem verður kynnt hér og lögð fram á næstu dögum, sem hefur áhrif á fjárlög hvers einasta árs, sem hafa áhrif á fjármál sveitarfélaganna. Sem eru líka svona hoppandi kát með þetta allt saman, eða hvað? Ekki alveg.

Það tókst ekki alveg að leggja þetta fram með því að uppfylla loforðin um minna fúsk. En ég nenni eiginlega ekki að tala um það. Það er búið að ræða mjög mikið um það í kvöld og í dag af hv. þingmönnum sem hafa mun meira vit á því en ég.

Ég lofaði ykkur að vera í stóru línunum. Það er það sem þetta snýst um. Þetta snýst um þá pólitík sem við viljum sjá. Þetta snýst um rammann um samfélagsgerð okkar næstu fimm árin. Það er ekkert smáræði. Hér hefur hver hv. þingmaðurinn á fætur öðrum komið í pontu og hrósað fjármálaráðherra sérstaklega fyrir að sitja í salnum og láta jafnvel svo lítið að eiga í samtali við þingmenn. Ég tek ekki undir það. Mér finnst ekki nema sjálfsagt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sitji undir þessari umræðum. Raunar finnst mér að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ætti að sitja undir öllum umræðum sem snerta fjármál ríkisins. Enn fremur finnst mér að hér ættu að sitja fleiri ráðherrar en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hér er verið að draga upp rammann um það samfélag sem við viljum sjá á næstu fimm árum. Ég hefði viljað sjá fullan þingsal af glaðværu fólki sem tækist á í orðum um hvaða línur ætti að leggja. Hvernig viljum við sjá þetta samfélag? Það er það sem við erum að draga upp hér. Og það er alveg sama hvaða orðskrúð við veljum, hvaða ramma í excel-skjalinu við vísum í, við komumst ekkert fram hjá því að hér erum við með sveltistefnu þegar kemur að útgjöldum, að innviðauppbyggingu, að öllu því fagra og háleita sem við lofuðum öll kjósendum okkar þegar við þurftum óvart á atkvæðum þeirra að halda.

Það er eins og hafi orðið einhver töfrastund á Íslandi fljótlega eftir kosningar þegar meira að segja ríkisstjórnarflokkur sem hafði setið í fjármálaráðuneytinu í rúm þrjú ár uppgötvaði allt í einu að staðan væri allt önnur en hann hafði haldið. En hún er ekkert svo önnur. Það er búið að vera að tala um þetta ansi lengi, hvernig tekjugrunnur ríkisins var veiktur. Það er búið að ræða um það hvernig, ef teknar eru frá einskiptistekjur og sérstakar færslur í ríkisbókhaldinu, reksturinn hefur verið í járnum. Af hverju? Jú, af því að síðasta ríkisstjórn veikti tekjugrunninn gríðarlega mikið. Ég leyfi mér að draga í efa að í raun hafi verið hægt að tala um sjálfbæran ríkisbúskap, svo mikið var búið að veikja tekjugrunninn.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson vitnaði í umsögn Alþýðusambands Íslands. Ég ætla að leyfa mér að endurtaka það að einhverju leyti og jafnvel bæta við, með leyfi forseta:

„Fyrirliggjandi fjármálastefna byggir að mati ASÍ í meginatriðum á að auka afgang af rekstri ríkissjóðs með því að nota eignir og afgang af rekstri til hraðari niðurgreiðslu skulda en áður var áformað. Með því lækki vaxtagjöld ríkisins og afkoman batni. Að baki þeirri áætlun er hins vegar óljós stefna um sölu ríkiseigna og talsverð óvissa um söluverðmæti þeirra eigna sem um ræðir. Tekjustofnar ríkisins hafa á undanförnum árum verið veiktir sem dregur úr aðhaldi ríkisfjármálanna og minnkar verulega svigrúm til nauðsynlegra velferðarumbóta. Engin áform eru þannig uppi um að nýta bætta stöðu sem lægri vaxtagjöld ríkissjóðs skapa til aukinnar almennrar velferðar.“

Þetta er dálítið mikið lykilatriði. Það er ekki eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eða hv. stjórnarliðar, jafnvel hæstvirtir, stígi hér í pontu og lýsi því hvernig eigi að nota það svigrúm sem lægri vaxtagjöld ríkissjóðs skapa til aukinnar almennrar velferðar. Hve miklu á að eyða í heilbrigðiskerfið? Vegakerfið? Hvað tókst okkur að kría út í samgönguáætlun með staðfastri baráttu gegn samgönguráðherra sem lýsti því strax yfir að það væru ekki til peningar? 1,2 milljarða króna. Eigum við að treysta því að þessi ríkisstjórn muni gera það að forgangsverkefni, ef þetta svigrúm skapast, að auka almenna velferð? Ég ætla að leyfa mér að vera spar á það traust.

ASÍ segir einn helsta veikleika fyrirliggjandi fjármálastefnu vera að ekki er hægt að leggja mat á tekjur og útgjöld hins opinbera að teknu tilliti til hagsveiflunnar. Það er nú það sem þetta allt á að gera. Þetta á allt að rúmast innan hagsveiflunnar. Seðlabankinn varar við því, alls kyns stofnanir, fólk setur spurningarmerki við það, en það breytir engu um að þannig á að gera það.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur spurt hér nokkrum sinnum í kvöld, þótt mér sýnist hann nú ekki ætla að sýna mér þann heiður að fara í andsvar við mig þar sem hann er ekki í salnum … (SSv: … út af þessu með stærðfræðina.) Já, þrátt fyrir að ég hafi mært stétt hans í upphafi máls míns og talið mig hafa keypt mér í það minnsta eitt andsvar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrr í dag eitthvað á þá leið að hann vildi sýna aðhald þegar væri spennustig í þjóðfélaginu jafnframt því að borga niður skuldir og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir þannig að hægt væri að eyða meira í þau ágætu mál sem við erum sammála um að verði að vinna. Hvaða ágætu mál eru það? Er hæstv. fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson að tala um Benedikt Jóhannesson oddvita í Norðausturkjördæmi? Að hann sé sammála honum um þau ágætu mál sem þurfti að vinna fyrir kosningar? Ég veit það ekki. Ég hef ekki heyrt hæstv. fjármálaráðherra tala mikið um hvað þurfi að byggja upp, í hvað þurfi að eyða þessum meintu tekjum og svigrúmi sem verður til. Hann talar mikið um aðhald. Gekk hér á hv. þingmann áðan og spurði hversu mikið aðhald mætti sýna. Ég hefði viljað spyrja hæstv. fjármálaráðherra hversu miklar tekjur má ríkið eiga. Hversu miklar prósentulega séð af skatttekjum. Hvernig á það kerfi að vera? Hversu mikil útgjöld má ríkið leyfa sér? Er það virkilega þannig að það sé meitlað í stein að þegar hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson gengur út úr fjármálaráðuneytinu sé fullkomnun náð í skattkerfinu? Þannig ætlum við að hafa það, takk fyrir, bless? Þetta er það sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra er að leggja til með sinni fjármálastefnu og kemur ekki á óvart, hafandi átt í viðræðum um mögulega stjórnarmyndun í desember, að þetta sé viðhorfið.

Ég tel að okkur beri í umræðum um fjármálastefnu til fimm ára að teikna upp það samfélag sem við viljum sjá. Hvaða tekjur eru það sem eiga að skapa svigrúmið? Jú, það er sala á ríkiseignum. Það er slegið í og úr með það. En hefur það verið rætt? Hefur stefna um það verið rædd og teknar ákvarðanir og fólk einfaldlega komið hreint fram með það? Það er þetta sem við viljum gera. Ég hef ekki heyrt það.

Enda virðist hver höndin vera … ja, ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni, en í það minnsta virðast vera mjög ólíkar áherslur á meðal stjórnarliða um hvað beri að gera í þeim efnum, hvernig beri að gera það og hvað sé rétt að gera.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég bæri óttablandna virðingu fyrir stærðfræðingum. En ég ber mun meiri virðingu fyrir fólki sem kemur hreint og beint fram, fólki sem hefur pólitíska stefnu, hefur sýn á það samfélag sem það vill sjá, er tilbúið að tala fyrir því hvernig eigi að ná að byggja upp það samfélag, sem felur sig ekki á bak við orðaleppa, sem segir hreint út hvað það meinar fyrir kosningar. Ég ber ekki eins mikla virðingu fyrir fólki sem segir eitt fyrir kosningar og annað eftir þær. Þrátt fyrir að því takist jafnvel að halda einhverjar dagsetningar um framlagningu mála. Um það snýst pólitík ekki fyrir mér. Hún snýst um það hvernig samfélag við viljum sjá. Og ég vil ekki sjá það samfélag sem teiknað er upp í þessari fimm ára fjármálastefnu.