146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að ræða þetta mál hér þótt nokkuð halli degi. Ég get kannski flutt seinni ræðu á morgun í björtu. Okkur er sagt að þetta sé eitt mesta grundvallarplaggið sem verði í höndum Alþingis á þessu kjörtímabili. Hér eru færðar fram miklar ræður um að svo hátti nú til á grundvelli laga um opinber fjármál að hér sé í eitt skipti fyrir öll í aðalatriðum verið að ganga frá ríkisfjármálunum til næstu fimm ára. Það er þá ekkert lítið undir. Maður skyldi ætla að hér væri setinn hver bekkur og að ráðherrar væru hér á öllum stólum og tækju þátt í umræðunni.

Það er nánast látið eins og að nú eigi að leggja ríkisfjármálin í járnbenta steinsteypu til næstu fimm ára og eftir það verði engu um breytt, það sé bara einhver tæknivinna að færa þetta inn í ríkisfjármálaáætlun og enn ómerkilegri verði fjárlögin þegar þar að kemur. Það er bara útprentun á einhverju fylgiriti um skiptingu. En sem betur fer er þetta auðvitað ekki svo. Í fyrsta lagi er náttúrlega hægt að gjörbreyta þessu með því að skipta um ríkisstjórn, [Hlátur í þingsal.] því að hún á að leggja fram nýja fjármálaáætlun í upphafi síns starfstíma. Eigi þessi ósköp að ganga eftir þá hafa bæst við veigamiklar röksemdir til þess að koma þessari ríkisstjórn frá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Því að þetta er ónýtt plagg.

Í öðru lagi, og það er mikilvægt að þingmenn muni það, er það einfaldlega þannig að lög um opinber fjármál breyta engu um það að löggjafarvaldið er hér og fjárstjórnarvaldið er hér. Ef það hefur lent inni í lögum um opinber fjármál að það sé einhvern veginn öðruvísi, að þetta sé uppi í Stjórnarráði, eru þau lög ólög, þá standast þau ekki stjórnarskrána. Það er nú endir þeirrar ræðu. Það er allt saman rugl. Valdið liggur hér og Alþingi getur breytt þessu eins og því sýnis, og það þarf að gera það því að þessi tillaga er algerlega ónýt. Hún er það af mörgum ástæðum.

Ísland er ekki bara á hvaða stað sem er í dag. Það eru níu ár frá hruni. Við erum á sjöunda ári hagvaxtar. Hvenær á að byggja upp á Íslandi ef ekki núna? Ætla menn að bæta fimm árum við í hægagangi, í harðlífi? Já, það er hægri stefnan sem hér er á borð borin. Þá mun vanta 14 ár í það að Ísland hafi hlúð að innviðum sínum, byggt upp velferðarkerfi sitt, lagt sína vegi o.s.frv. Reyndar að hluta til meira vegna þess að opinberar framfarir voru skornar niður á köflum árin fyrir hrun vegna þenslu. Hvað ætla menn að hafa gatið stórt í uppbyggingu Íslands á nýjan leik? Vegna þess að þessi hægagangur, þetta lága, opinbera fjárfestingarhlutfall er orðið landinu og framtíðinni í þessu landi stórhættulegt. Það verður að fara að tala mannamál um þetta. Það gengur ekki lengur að ganga svona á innviðina.

Afkoman sem sveitarfélögunum er ætluð hér er skaðræði við íslenskt velferðarsamfélag. Hvernig reka þau sig þessi árin? Hvernig reyna þau að mæta markmiðinu um nýjar fjármálareglur? Með því að draga fjárfestingar saman niður í ekki neitt. Samband íslenskra sveitarfélaga segir okkur að það gangi á innviði sveitarfélaganna. Fjárfestingarnar duga ekki á móti fyrningum. Þær duga ekki til að halda þeim við. Þær eru að rýrna. Það er beinlínis verið að ganga á innstæðuna, ekki einu sinni verið að halda henni við. Ástandið hjá ríkinu er lítið skárra. Þetta er skuld, ekki síður alvarleg en sú sem er í pappírum ríkisins. Mikil og vaxandi skuld við framtíðina sem hlaðist hefur upp, og ætla menn ekkert að takast á við hana? Þjóðhagslega er þetta örugglega miklu verri skuldastýring en að greiða niður pappírsskuldirnar. Orðið skuldastýring er fínt hugtak í þessum fræðum.

Hvers konar skuldastýring er það að leggja alla áherslu næstu fimm árin á það, sem er vissulega gott, að greiða niður skuldir og lofa því fyrir fram að allir búhnykkir ríkisins í formi óreglulegra tekna skuli fara í viðbótarniðurgreiðslu skulda. Ég er sammála því að óreglulegir liðir eiga ekki að fara inn í rekstur. Menn eiga ekki að venja sig á að reka sig út á það að þeir vinni einhverja happdrættisvinninga. En hvað er að því að ráðstafa t.d. tekjum af eignasölu yfir í fjárfestingar? Það er ekkert óábyrgt við það, ekki neitt. Þess vegna gef ég ekkert fyrir formúlurnar hér um það að ef t.d. ríkið losar einhvern tímann á komandi árum um eitthvað af eignarhlutum sínum í bönkum sé það ábyrgðarleysi að byggja vegi fyrir það. Nei, ég ætla sko ekki að skrifa upp á það.

Frammistaða manna í samgöngumálum að undanförnu, með auðvitað miklum skilningi á því hversu ríkar þarfirnar eru í heilbrigðis- og menntamálum og í velferðarkerfinu, er að mínu mati verst af öllu. Hún er svo glórulaus þegar við höfum í huga hversu lengi er búið að svelta vegakerfið, hversu gríðarlega umferðin hefur aukist, þarfir ferðaþjónustunnar, þá er það með öllu óskiljanlegt að stjórnvöld skuli hafa leikið þennan málaflokk svona síðastliðin fjögur, fimm ár. Það er óskiljanlegt. Menn hafa ekki einu sinni nýtt hina mörkuðu tekjustofna í það sem þeir eiga að fara í, þ.e. að kosta uppbyggingu samgöngukerfisins. Nei, menn hafa ekki látið þá fylgja verðlagi. Þeir vildu skilja meira eftir ofan í vösum hjá fólki, sagði forveri núverandi hæstv. fjármálaráðherra. En hver á almennt að borga vegina? Hvernig er sanngjarnt að fjármagna þá? Er ekki áratugasamkomulag um að umferðin eigi að gera það sjálf og að við leggjum á hana sérstaka skatta til þess að færa yfir í vegina og innviðina sem samgöngurnar njóta síðan? En þá gera menn það ekki. Nei, af því að kreddan, löngunin til að geta verið mikill maður í Valhöll og sagst hafa lækkað skatta og skilið meira eftir ofan í einhverjum vösum, ber menn ofurliði. Hún rænir menn allri skynsemi, hún rænir menn öllu raunsæi og menn fara út af. Þar fara menn sko út af veginum enda er hann orðinn holóttur. Þetta er algerlega orðið glórulaust. Ég spyr aftur: Hvernær á að byggja upp á Íslandi ef á ekki að gera það á sjöunda ári hagvaxtar, ekki eftir níu erfið ár frá hruni, hvenær á þá að gera það?

Árið 1971 urðu blessunarlega stjórnarskipti í landinu og hvað gerðu menn þá? Menn hófu uppbyggingarskeið. Menn færðu út landhelgina, menn keyptu skuttogara, menn byggðu frystihús, menn byggðu heilsugæslu og menn lögðu vegi. Hvað gerðist? Það voraði á Íslandi og alveg sérstaklega á landsbyggðinni. Það hófst uppbyggingarskeið í sögu landsins þar sem menn fjárfestu í framtíðinni og fjárfestu í innviðunum. Að þessu síðasta almennilega uppbyggingarskeiði bjó landsbyggðin lengi í framhaldi af þessu. Stór hluti yngstu húsa á landsbyggðinni er frá þessum tíma og inn á níunda áratuginn. Búsetuþróun snerist við og það voraði á ýmsan hátt. Það eru slíkir hlutir sem við þurfum aftur á Íslandi, ekki að fljóta sofandi að næsta hruni eða næstu kreppu. Hef ég þó ekki tíma til að fara eins og vert og skylt væri í hagstjórnarmistökin sem menn hafa verið að gera og eru enn að gera.

Hvernig er staðið að þeim málum? Er það tilviljun að við sum erum komin á þann stað sem við erum núna á, að það er að byggjast upp harkalegt ójafnvægi í hagkerfinu, við ráðum ekki við ofrisið á krónunni, við höfum algerlega klúðrað því að hafa stýringu og taumhald á vexti ferðaþjónustunnar og við erum að missa þessa hlut úr böndunum? Það er engin tilviljun. Menn eru langt komnir með að gera nákvæmlega sömu hagstjórnarmistökin og fyrir hrun. Hvað stóð í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um beitingu ríkisfjármálanna árin fyrir hrun? Jú, menn sögðu mjög réttilega: Skattalækkanirnar á árunum 2003–2008 voru olía á eld þenslunnar, þær gerðu illt verra. Hvað hafa menn gert núna? Nákvæmlega það sama. Í vaxandi þenslu í hagkerfinu var það forgangsverkefni hægri aflanna að lækka skatta og aðallega á þeim sem ríkastir eru.

Aðhaldið í ríkisfjármálunum hefur minnkað um 2–2,5% af vergri landsframleiðslu að meðtöldu þessu ári miðað við hagsveifluleiðréttan frumjöfnuð. Það eru engir smápeningar. Það hefur sín áhrif, enda vælir Seðlabankinn og notar það m.a. sem afsökun fyrir því að halda uppi svimandi háum vöxtum. Þótt verðbólga sé innan við eða undir viðmiðunarmörkum í þrjú ár í röð þá er samt keyrt hér á einhverjum hæstu vöxtum í heimi. Það voru dýrir kjarasamningar og eitthvað geta menn skotið sér á bak við þá. En nánast að öllu öðru leyti er þetta bara fórnarkostnaður sem íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf sitja uppi með. Og litið í baksýnisspegilinn, sem auðvitað verður alltaf að hafa þann fyrirvara á að sé baksýnisspegill, þá grætur maður það að við skulum þurfa að hafa haft svona hátt vaxtastig í landinu allan þennan tíma. Ég sé ekki hvaða tilgangi það hefur þjónað meðan landið var í gjaldeyrishöftum, Seðlabankinn stýrði genginu með inngripum á gjaldeyrismarkaði og við fluttum inn verðhjöðnun frá Evrópu. Það er auðvitað engin ástæða fyrir þessum háu vöxtum. En þeir eru staðreynd og þeir þýða það að við erum illa stödd á nýjan leik í tilteknum hagstjórnarlegum vítahring sem við þekkjum allt of vel af langri reynslu.

Hvað ætlum við að gera ef þetta snýst nú við, ef olíuverð fer að hækka og hrávöruverð fer að hækka og innfluttur varningur verður þar af leiðandi dýrari sem þarf í framleiðslustarfsemi og verðmætasköpun á Íslandi, ég tala nú ekki um ef gengið hættir að styrkjast eða veikist jafnvel, hvernig ætla menn þá að halda aftur af verðbólgu með ríkisstjórn sem slakar á í ríkisfjármálum? Það verður væntanlega þannig að Seðlabankinn telur sig knúinn að til að hækka vextina enn meir. Kannski dregur það svo aftur inn fjármagn sem finnur sér alltaf leiðir, samanber að vaxtarmunarviðskipti eru á Íslandi í gangi á nýjan leik þótt Seðlabankinn telji sig hafa fundið upp voðalega fínt fjárstreymistæki til að stýra þeim. En hvað gera hinir erlendu aðilar þá? Þeir fara bara í aðra hluti. Kaupa sig inn í Kauphöllina. Finna sér aðrar leiðir til þess að gera út á vaxtamun milli Íslands og annarra landa.

Það þarf auðvitað að taka á mörgu í hagstjórnarlegu tilliti, en það verður líka að horfast í augu við og finna leiðir til að búa til það svigrúm sem við þurfum að skapa okkur til þess að geta farið að byggja upp aftur í landinu. Við getum ekki búið við þetta í mörg ár í viðbót. Það er algerlega glórulaust.

Kannski hélt maður að hæstv. ríkisstjórn hefði lært sína lexíu þegar samgönguráðherra fór að skipta vegafénu sínu og menn hröktust að lokum til þess að setja að vísu allt of litla peninga í viðbót inn í það. Skynja menn ekki andrúmsloftið í samfélaginu? Skynja menn ekki óþreyjuna sem orðin er eftir því að nú verði farið að byggja upp? Það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera allt í einu. Það eru alveg gild rök að stíga þyrfti varlega til jarðar ef við værum að tala um að stórauka opinberar fjárfestingar. Það er hagstjórnarvandi í því við núverandi aðstæður, að sjálfsögðu. Þá kemur auðvitað eitt til sögunnar sem er sjálfgefið og það er að hverja einustu krónu sem menn setja í umferð verður að fjármagna, taka úr umferð annars staðar á móti. Þá er að sjálfsögðu hægt að dreifa meiri fjárfestingum með skynsamlegum hætti þannig um hagkerfið, t.d. með fjárfestingum á landsbyggðinni sem ekki er nú almennt séð að drepast úr þenslu að það rúmist innan hagkerfisins. Það verður að gera með ábyrgum hætti gagnvart hagstjórninni og það þarf að gera. Það er málið.

Eða er einhver hérna inni sem er hamingjusamur með að sigla svona áfram fimm ár í viðbót? Eru stjórnarþingmenn það? Eru það góð skilaboð upp í háskóla, í framhaldsskólana, í vegakerfið, heilbrigðiskerfið? Nei, því miður eru þetta fimm ár í viðbót af því sama. Það er það sem verið er að bjóða upp á hér. Efnahagslegar forsendur hvað burði Íslands varðar nú til dags hafa enga þörf fyrir það. Það er ekki þannig. Skuldahlutfall ríkisins og tekjumöguleikar hins opinbera eru komnir í ágætislag. Það eina sem vantar er viljinn til að sækja tekjur.

Ég tel að mestu vonbrigði kosningabaráttunnar og úrslitanna — fyrir nú utan hvernig þau voru, sumir flokkar fengu allt of mikið, og jafnvel álpuðust flokkar inn á þing sem hafa ósköp lítið þar að gera — voru að það er ekkert samræmi milli orða og gjörða. Það stóð upp úr öllum í kosningabaráttunni að nú þyrfti að fara í innviðauppbyggingu, að nú þyrfti að byggja upp. En var þetta svo bara allt í plati þegar búið var að kjósa? Ætla menn að hafa þetta þannig í þrjú og hálft ár og ætla svo að gefa í árið 2020 með feitri, afturhlaðinni samgönguáætlun upp á gamla móðinn? Er það þannig sem stjórnarliðið ætlar að krafla sig í gegnum þetta? Ég held að verði ekki þolinmæði til að bíða eftir því. Við getum það ekki.

Annaðhvort verður þessi ríkisstjórn að breyta í verulegum mæli um áherslur frá því sem hér er eða hún mun verða hrópuð niður. Aðstæðurnar í samfélaginu munu hrópa hana niður. Ég trúi því ekki að menn ætli að láta sjá sig sums staðar úti á landi með þá frammistöðu sem þeir eru með á bakinu núna í þessum efnum, vegna þess að fólk er alveg læst á þetta.

Hér er til viðbótar við þær stífu reglur, sem eru beint í lögunum um opinber fjármál og við töldum mörg of stífar og studdum þar af leiðandi ekki málið, bætt inn viðbótarskrúfum. Það er eins og ekki hafi verið nóg járn í steinsteypunni. Nei, það er sett þak á útgjöld ríkissjóðs í viðbót við öll hin skilyrðin í fjármálareglunum upp á 41,5% af vergri landsframleiðslu. Hvaðan kemur mönnum sú speki að það þurfi að hafa bæði belti og axlabönd og gjarðir utan um sig á alla enda og kanta, keðjur og ég veit ekki hvað? Treysta menn ekki sjálfum sér? Til hvers að hafa þetta fáránlega þak, sem er auðvitað mjög óskynsamlegt, þegar það bætist við þröngan ramma sem gerir það að verkum að ríkissjóður verður að meðaltali að vera í jöfnuði og í afgangi á fimm ára tímabili og má aldrei fara niður fyrir strikið nema um 1,5% o.s.frv.? Þá er nú lítið orðið hægt að gera. Það er kannski þannig sem menn vilja hafa þetta, fjarlægja bara allt sem heitir hugsun og meðvitund út úr stjórnmálum og hagstjórn í landinu, setja þetta bara á sjálfstýringu. Fyrst finna menn rammann, skrúfa hann fastan, leggja steypuna, járnin í, síðan er gengið frá öllu saman og svo er það bara sjálfstýringin. Ekkert gert. Er það mjög gáfulegt? Halda menn að það verði til farsældar? Vilja menn reka mannlegt samfélag svona? Nei, það held ég ekki. Það held ég að sé ekki vel til farsældar fallið.

Við erum komin langt á leið með að gera gamalkunnug mistök. Því miður. Hættumerkin eru öll til staðar. Að sjálfsögðu er sem betur fer margt öðruvísi og breytt er frá því sem var á vitleysisárunum fyrir hrun. Skárra væri það nú, því að annar eins galskapur hefur varla verið í gangi á byggðu bóli, alla vega ekki í vestrænum þróuðum ríkjum svo vitað sé, enda urðu afleiðingarnar eins og kunnugt er af þeirri stefnu.

Það sem er miklu betra núna er t.d. það að skuldahlutföll eru betri. Sem betur fer hefur ekki enn þá brostið á með skuldsettu neyslufylliríi. Það er gott. En það þýðir ekki að hagstjórnin og jafnvægið sé í lagi í hagkerfinu. Nei, það þýðir bara, sem er auðvitað huggun, að ef bakslag kemur, niðursveifla, þá verður hún ekki jafn sársaukafull fyrir allan þorra almennings og þess vegna atvinnulífs, sem er minna skuldsett. Og það er gott. En það segir ekkert um það að hlutirnir séu í lagi þó að þessar undirstöður séu enn sem komið er a.m.k. sterkari en þær voru orðnar fyrir hrun.

Við þurfum alveg nákvæmlega eftir sem áður að gæta að okkur og fara ekki út af sporinu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að metnaður manna sé ekki meiri fyrir hönd framtíðarinnar en sá að negla niður þessa áætlun. Verði það gert er hún ónýt. Hún mun ekki halda og hún mun ekki standa.

Síðan er ég þeirrar skoðunar, frú forseti, að það sé ótímabært að afgreiða þetta mál núna. Ég vil a.m.k. sjá fyrstu ríkisfjármálaáætlunina. Þá kemur kannski eitthvað af þeim sundurliðunum og greiningum sem lögin gera ráð fyrir að séu til staðar þegar við mótum stefnuna í þessum málum, (Forseti hringir.) þar sem búið væri að kortleggja fjárþarfir heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, til framtíðar litið o.s.frv. Svona vísir að langtímaáætlun (Forseti hringir.) á að fylgja með til grundvallar þessari stefnumörkun. Hvar er mikilvægasta mál kjörtímabilsins í þessu auma plaggi, (Forseti hringir.) sem eru rúmar tvær arkir, níu blaðsíður? Þetta plagg er algjört hneyksli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)