146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa líflegu ræðu. Það var gaman að sjá hann með svona gamalkunna takta. Eini gallinn við þessa ræðu var að hún er eiginlega flutt við vitlaust tilefni. Hann er að flytja ræðuna um fjármálaáætlunina, en ég vil benda hv. þingmanni á það að hún verðir ekki lögð fram fyrr en á föstudaginn, þá getur hann náttúrlega flutt þessa ræðu aftur og við munum hafa jafn gaman af og áður.

Ég vil hins vegar spyrja, af því hv. þingmaður talaði um það í ræðu í dag að það væri of mikil þensla í samfélaginu og það væri rétt að veita aðhald: Hvernig myndi hv. þingmaður veita þetta aðhald, t.d. hvaða afgang vill hann sjá í ríkisfjármálum og hvernig sér hann fyrir sér skuldamarkmið í fjármálastefnunni?