146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra var í viðtali á Útvarpi Sögu á mánudaginn var og gerði þar lítið úr vernd minnihlutahópa í almennum hegningarlögum. Í viðtalinu lagði dómsmálaráðherra nánast að jöfnu annars vegar almenna vernd ærunnar og hins vegar bann við hatursáróðri. Þótt ráðherra hljóti að vita betur tók hún undir með þáttarstjórnandanum sem furðaði sig á því að minnihlutahópar ættu skilið sérstaka vernd gegn hatursáróðri umfram aðra almenna borgara.

Dómsmálaráðherra ýjaði jafnvel að því að rétt væri að bæta við upptalningu minnihlutahópa í ákvæði almennra hegningarlaga um hatursáróður og gera stjórnmálamenn að sérstökum minnihlutahópi ásamt þeim sem verða fyrir aðkasti á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.

Hingað til hefur viðhorfið verið að stjórnmálamenn þurfi einmitt að þola hvassari gagnrýni en aðrir stöðu sinnar vegna. En gott og vel. Það sem öllu verra er hins vegar er að dómsmálaráðherra tjáði sig frekar frjálslega um dómsmál sem nú er rekið fyrir dómstólum gegn útvarpsmanni á Útvarpi Sögu þar sem ráðherrann var í viðtali. Var dómsmálaráðherra þar að leggja dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur línurnar um hvernig túlka beri löggjöfina í yfirstandandi dómsmáli? Maður spyr sig.

Frú forseti. Réttarríki er algjör undirstaða raunverulegs lýðræðis og virkrar mannréttindaverndar. Sjálfstæði dómstóla er svo aftur grundvöllur réttarríkisins. Dómsmálaráðherra er höfuðið á dómsvaldinu í landinu og valdið sem í því felst er gríðarlega vandmeðfarið. Öllum hlýtur því að vera ljóst hve óviðeigandi og í raun hættulegt réttarríkinu það er þegar dómsmálaráðherra ræðir af fullkominni léttúð efnislega dómsmál sem rekin eru fyrir íslenskum dómstólum og hafa ekki enn verið til lykta leidd.