146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Mig langar að eiga orðastað við hana um nokkuð sem hún sagði í sinni ræðu og sló mig og mér fannst athyglisvert og fékk mig til umhugsunar, þ.e. það að trassa innviðauppbyggingu séu í raun vextir sem lendi á samfélaginu, ekki síst samfélaginu inn í framtíðina. Mér finnst þetta athyglisverð nálgun og er sammála henni. Ég hef hugsað það þannig líka að það sem núverandi ríkisstjórn hefur talað um þegar kemur að uppbyggingu er ekki síst að koma á sérstökum þjónustugjöldum, bæði tollum og fleiri slíku, og boða einkavæðingu hér og einkavæðingu þar sem þýðir oftar en ekki greiðsla fyrir þjónustu. Ég lít á það sem skatta í raun.

Mig langaði að ræða þetta við hv. þingmann því hér er ríkisstjórn sem gumar af því að vera ekki með skattahækkanir og jafnvel slær sér á brjóst fyrir það en trassar svo í öðru orðinu þá nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem þarf að fara fram og auka við vaxtabyrði þjóðarinnar eins og hv. þingmaður kom inn á sem og að boða skattahækkanir í formi sérstakra gjalda. Samkvæmt fagurgala nútímapólitíkur er víst betra að tala um gjöld en skatta. Þá geta menn falið sig á bak við það. Mig langaði að biðja hv. þingmann aðeins að fara með mér í þessa hugleiðingu, að í raun sé verið að boða vexti á samfélagið með grotnun innviða og auknar álögur með þessum sérstöku þjónustugjöldum.