146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni enn á ný og tel að það ætti að kalla hlutina réttum nöfnum. Það fer svolítið eftir því hvernig maður lítur á hlutina hvaða nöfnum maður kýs að kalla þá. Ég held að hluti af hugmyndafræðinni sem hefur tekist að taka yfir er að tala alltaf um skattahækkanir frekar en t.d. tekjuöflun til að fjárfesta í innviðum. Ég held að það sé búið að taka svolítið af okkur tungumálið sem við getum notað til þess að ræða það sem okkur finnst um skattahækkanir eða um tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs til að tryggja öllum mannsæmandi þjóðfélag að búa í, hvort sem maður lítur á það sem tekjujöfnunarhlutverk eða bara hlutverk ríkisins að afla sér tekna til að fjárfesta í þeim helstu innviðum sem við höfum á þessu landi og notum til að byggja saman samfélag.

Skattar hafa alltaf einhvern veginn haft neikvæða merkingu. Ég er svo sem ekkert mótfallin því að kalla þá skatta. En ég held að helsti sigur þeirra sem kenna sig við frjálshyggju sé einmitt að hafa tekist að tengja mjög neikvæða merkingu við skatta og allt tal sem tengist þeim nema einna helst ef það er að tala um að lækka þá. Þeir eru hvað klárastir í að búa til orðræðu sem hentar þeim hverju sinni. Stundum spyr maður sig hvort maður eigi að detta í sama pytt til að taka þátt í þessu rugli og búa til sína eigin hugmyndafræði og sín eigin jákvæðu orð og jákvæðu hugrenningatengsl og breiða yfir allt sem maður vill í raun ekki að komi fram. En ég held að það sé miklu betra að tala hreint út um hlutina. Þessi fjármálastefna ber ekki með sér að ríkisstjórninni sé neitt sérlega annt um þjóðfélagið sitt. Hún ber miklu frekar með sér að ríkisstjórninni sé aðeins annt um tölur á blaði og seðla í veski.