146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt áhugavert mál út frá því hvernig ákveðið var að setja stefnuna fram. Samkvæmt lögum um opinber fjármál á að setja fram stefnu og hafa síðan greinargerð um það hvernig sú stefna passar við grunngildin. Þegar það vantar er það brot á grunngildunum sjálfum um ákveðna festu og stöðugleika og sérstaklega gagnsæi. Það er dálítið skemmtilegt hvernig það að sleppa þessu brýtur á þeim skilyrðum sem stefnunni eru sett. Aftur hvað varðar skattana: Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér hvar væri sniðugt að setja slíka fyrirspurn fram. Hvort það væri bara beint til fjármálaráðherra, skýrsla til Ríkisendurskoðunar eða hvert það færi. Það væri kannski eitthvað sem við gætum grafið upp í hliðarherberginu á eftir.

Ég spyr: Þar sem stefnan uppfyllir í raun ekki þau skilyrði sem sett eru í lögum um opinber fjármál, er þetta tæk og gild stefna sem Alþingi ætti að samþykkja?