146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu; þar var komið inn á kjarnann í pólitík sem fjallar um það hvernig samfélagi við viljum búa í. Svona ræður finnst mér alveg til fyrirmyndar einmitt þegar við erum að ræða um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar vegna þess að í henni birtist grunnuppskriftin að þeirri samfélagssýn sem boðuð er. Og það er ekki góð sýn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún kom inn á hugtök eins og sjálfbærni og að hugsa um framtíðina. Í nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar segir, með leyfi forseta, feitletrað:

„Áframhaldandi hagvöxtur er meginforsenda stefnunnar.“

Er hægt að vera með svona pólitík á 21. öld þegar við ætlum að fara að taka á loftslagsmálum?