146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi spurningar hv. þingmanns um ósamræmi milli þessarar stefnu annars vegar og áherslna einstaka ráðherra ríkisstjórnarinnar hins vegar þá er það náttúrlega himinhrópandi. En mest af öllu þó það sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt og er í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar um megináherslu hennar á heilbrigðismál því að þegar til stykkisins kom og farið hefur verið að ganga á hæstv. heilbrigðisráðherra um hvað standi til og hvenær og hversu mikið hefur hann ekki svarað með mjög afgerandi hætti, svo ekki sé fastar að orðið kveðið, heldur vísar yfirleitt í þessa ríkisfjármálaáætlun og segir að í henni muni þetta allt saman koma í ljós. Það er ekki laust við að það hljóti að vera hápunktur spennunnar á morgun þegar kemur í ljós hverjar hinar raunverulegu pólitísku áherslur ríkisstjórnarinnar eru í einstökum málaflokkum ef áherslurnar eiga að rúmast innan stefnunnar sem gerir í raun ráð fyrir mjög þröngum ramma. Það er lykilatriði.

Hv. þingmaður spyr líka hvenær eigi að fara í uppbygginguna. Ég tek undir þá spurningu. Hvenær í ósköpunum ef ekki núna? Eigum við að halda áfram í aðhaldi næstu fimm árin og hvernig á eiginlega efnahagsástandið á Íslandi að vera ef við eigum ekki að fara að gera innviðum okkar til góða?

Þingmaður spyr líka hvernig eigi að vinna gegn þensluáhrifum. Við þurfum að vera óttalaus í því til að mynda að skattleggja ferðaþjónustuna. Við þurfum að beita þeim verkfærum sem við höfum til að bæði afla tekna og tempra einstaka spennufleti í efnahagslífinu. Það þurfum við að gera með opin augun og án þess að við séum sliguð af eigin kreddum, eins og mér finnst stundum vera vandi núverandi ríkisstjórnar.