146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er nákvæmlega þetta sem mér finnst vera að. Þess vegna er mikilvægt að fá fram fjármálaáætlunina áður en við göngum frá fjármálastefnunni. Við vitum að fjárþörfin í heilbrigðiskerfinu er gríðarleg, nefnum hjúkrunarheimili, tannlækningar aldraðra, uppbygginguna á Landspítalanum, að því ógleymdu að heilbrigðisstofnanir hringinn í kringum landið hafa liðið allt of mikinn skort í allt of langan tíma, kannski hreinlega ranga stefnu í mjög langan tíma. Ef það mun skýrast í fjármálaáætluninni að hægt sé að ná 40–45 milljarða afgangi af ríkissjóði og setja fullt af peningum í heilbrigðiskerfið veltir maður fyrir sér hvort það muni ekki vanta verulega fjármuni í samgöngukerfi, menntamálin, í loftslagsmálin sem hv. þingmaður nefndi áðan, og önnur þau verkefni sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað um. Því langar mig að heyra vangaveltur þingmannsins (Forseti hringir.) um það hvort ekki sé nokkuð ljóst að við þurfum að fá fram þessa fjármálaáætlun áður en við getum lokið umræðu um fjármálastefnu vegna þess hve andstæð sjónarmið birtast annars vegar hjá fjármálaráðherra og hins vegar hjá fagráðherrum.